Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 12:43:21 (4825)

2000-02-24 12:43:21# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, KPál
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[12:43]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með öðrum hér og lýsa ánægju minni með þetta frv. Ég geri ráð fyrir að það sé endapunktur á nokkuð löngum ferli í átt að því að gera það álíka hagkvæmt að reka hér farartæki með tvenns konar möguleika í orkunotkun sem geta um leið nýtt mjög mengandi gastegundir eins og metangas og þar með minnkað umhverfisáhrif þeirra í andrúmsloftinu.

Ég held að um þrjú ár séu síðan ég hreyfði þessu máli hér á þinginu. Ég hef minnt á það hér öðru hvoru síðan en að sjálfsögðu er það mun fyrr að Sorpa, sem á allt frumkvæðið í þessu máli, gerði mönnum ljóst hvað fælist í að virkja gasið í sorphaugunum sem þeir hafa séð um á undanförnum árum. Þar er talið að gasið nýtist í allt að sex til sjö þúsund bíla. Þá erum við að tala um fólksbíla. Í Svíþjóð hefur þetta verið nýtt í nokkra áratugi þannig að þessi aðferð við notkun metangassins sem orku fyrir bíla er mjög þekkt. Í raun er furða að við skulum ekki hafa notað þessa tækni miklu fyrr.

[12:45]

Það er staðreynd að metangas er talið menga andrúmsloftið 24 sinnum meira eða vera 24 sinnum skaðlegra en koldíoxíð sem kemur frá bílum þannig að við sjáum þá í hendi okkar hvað þetta er skaðlegt gas sem streymir út í andrúmsloftið frá sorphaugum.

Ég lít ekki á þetta sem lítið skref í umhverfismálum eins og mér fannst hv. þm. Hjálmar Árnason segja hér áðan. Ég lít á þetta sem mjög stórt skref og þá tek ég þar saman bæði rafmagns- og metangasbíla. Mér finnst þetta í rauninni eðlilegra skref til að aðlaga bílaflota landsmanna að breyttum tímum að geta nýtt bensín á bíla jafnhliða því að nýta þá möguleika sem felast í metangasinu og rafmagninu því að þróunin er að sjálfsögðu sú að bensín er hverfandi eldsneytisgjafi og mun á næstu áratugum hverfa út. En spurningin er síðan, hvað kemur í staðinn? Verður það vetni eða rafmagn? Ég er ekki jafnviss og sumir aðrir að vetnið taki við vegna þess að vetni er að mörgu leyti gjörólíkt, vélar sem nýta vetni eru á allt öðru stigi en nútímavélar eða þær vélar sem nýttar eru bæði í bíla og á skip. Það gæti því orðið mun lengra en þrjú, fjögur ár þar til þetta tækist og sérfræðingar telja reyndar að það séu nokkrir áratugir í að almennt verði hægt að nota vetni. Vetni krefst líka mikilla virkjana sem eru viðkvæmar í umræðunni þessa stundina eins og við þekkjum. Ég held nú reyndar að umræðan um að nýta metangasið og rafmagnið hafi fallið dálítið í skuggann af vetnisumræðunni sem hefur þá tafið nauðsynlega þróun.

Ég vildi síðan aðeins beina því til hæstv. ráðherra hvort ekki sé til athugunar enn frekar hjá ríkisstjórninni að efla skógrækt og landgræðslu sem hefur samkvæmt upplýsingum frá Landgræðslu ríkisins einhver bestu og mestu áhrif til þess að binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Með því að nýta okkur þá möguleika sem felast í landgræðslu og skógrækt gætum við í rauninni uppfyllt mjög auðveldlega skuldbindingar sem okkur eru settar samkvæmt Kyoto-samningnum. Staðreyndin er nefnilega sú að það eru að koma fram á sviðið möguleikar til að binda slíka mengun með mörgum kostum sem við getum nýtt okkur. Það er ekki endilega bara það að nauðsynlegt sé að keyra vélar og tæki áfram með algjörlega mengunarlausum orkugjöfum heldur höfum við alla möguleika til að nýta þessa mengun jafnvel okkur til góðs skulum við segja því að í lífríkinu eru plöntur sem nýta beinlínis koldíoxíð sér til lífs. Að þessu leyti er þetta ekki bara neikvætt þegar litið er til mengunaráhrifa. Þetta er einnig fæði, þetta er einnig krafturinn sem sumar plöntutegundir þurfa á að halda.

Ég vil að lokum endurtaka að ég vona að frv. fari hratt og fljótt í gegnum þingið og að menn sjái þetta verða að veruleika. Ég vil að endingu lýsa því yfir að það starf sem Sorpa vann að þessu leyti er afskaplega merkilegt og á hún mikinn heiður skilið fyrir það.