Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 14:43:40 (4854)

2000-02-24 14:43:40# 125. lþ. 71.7 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Loksins er komið hér fyrir augu hv. þingmanna frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum, frv. sem missirum saman hefur legið í skrifborðsskúffu í umhvrn. eftir því sem ég fæ næst komist, þrátt fyrir að ný lög um mat á umhverfisáhrifum hefði átt að setja eigi síðar en 26. ágúst sl. til að uppfylla kröfur EES-samningsins um að lögtaka skipun 97/11/EB frá Evrópusambandinu um mat á umhverfisáhrifum.

Ég verð að nota þetta tækifæri, herra forseti, til að lýsa aftur undrun minni og vonbrigðum á svörum hæstv. umhvrh. áðan. Eftir stendur að hæstv. umhvrh. hefur ekki skýrt út fyrir hinu háa Alþingi hvers vegna fresturinn sé sá sem hann er í ákv. til brb. I, þ.e. hvers vegna sé svona mikil þörf á því að draga línuna við árslok 2002. Og það hlýtur að vera skylda bæði hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. að koma því skýrt til skila í umhvn. og til hins háa Alþingis hvaða framkvæmdir liggi hér undir. Hér liggur fiskur undir steini ef svo má segja.

[14:45]

Herra forseti. Ég vil þó segja að ýmislegt horfir til bóta í frv. frá núgildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum. Mig langar til að nefna nokkur atriði. Fyrst er að nefna ákvæði 5. gr. frv. þar sem ráðherra er veitt heimild til að ákveða að þegar fleiri en ein framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði verði umhverfisáhrif þeirra metin sameiginlega. Þó má spyrja, herra forseti, hvort þetta vald þurfi endilega að vera í höndum ráðherrans eins eða hvort það geti einnig verið í höndum Skipulagsstofnunar eða með öðrum hætti og það munum við skoða inni í hv. umhvn.

Í 6. gr. er það látið í hendur Skipulagsstofnunar að kveða á um nauðsyn umhverfismatsframkvæmda sem tilgreindar eru í 2. viðauka frv. en þó með þeim fyrirvara að ákvörðunina megi kæra til hæstv. umhvrh.

Einnig verður að telja tilraunina sem gerð er til þess að einfalda matsferlið virðingarverða. En hana verður þó að skoða mjög nákvæmlega í hv. umhvn. Ég legg mikla áherslu á að þetta mál fái þar ítarlega og vandaða umfjöllun og verð að segja vegna ummæla hæstv. umhvrh. um að hún vonaðist til þess að málið fengi skjóta afgreiðslu í umhvn. að hv. umhvn. Alþingis hefur nú ekki mjög góða reynslu af skjótum afgreiðslum á þessu þingi og það er ekki við hv. þingmenn í umhvn. að sakast að frv. sé komið fram jafnseint og raun ber vitni. Það hafa aðrir slugsað en við þannig að ég mun í það minnsta taka mér þann tíma sem ég tel nauðsynlegan til þess að fara yfir þetta frv. með stækkunargleri, herra forseti.

Ákvæði 11. gr. frv. um að Skipulagsstofnun sé heimilt að leggjast gegn framkvæmd án þess að krefjast ítarlegs mats vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa sem framkvæmdin muni hafa í för með sér tel ég vera af hinu góða. Einnig ber að fagna því að tekin eru öll tvímæli af um að allir geti kært ákvarðanir og úrskurði Skipulagsstofnunar eins og gert er í 12. gr.

Herra forseti. En þar með er sagan ekki öll sögð. Fyrsta bráðabirgðaákvæði frv. orkar tvímælis, eins og hér hefur ítrekað komið fram, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það mætti halda, herra forseti, að deilan um Fljótsdalsvirkjun og bráðabirgðaákvæði laga nr. 63/1993 hafi farið fram hjá hæstv. umhvrh. nú í haust. Hvað býr að baki þeirri ákvörðun að gefa handhöfum gamalla framkvæmdaleyfa ráðrúm í tæp þrjú ár í viðbót til þess að hefja stórframkvæmdir, stórframkvæmdir, herra forseti, án þess að mat á umhverfisáhrifum sé talið nauðsynlegt. Við þessu þurfa að fást skýr svör frá hæstv. umhvrh.

Ég minni á aftur að frv. Samfylkingarinnar á þskj. 230 um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993, er einmitt til komið til þess að hreinsa upp allan vafa, til þess að ekki liggi hér áratugagamlar virkjanaheimildir eða framkvæmdaheimildir, dúkki svo upp á nýrri öld og að það þurfi ekki að setja framkvæmdina í umhverfismat. Við vitum, herra forseti, að slík vinnubrögð eru einfaldlega ekki nógu góð og hið háa Alþingi á að temja sér betri vinnubrögð en þau sem hér er verið að opna á með enn einu bráðabirgðaákvæðinu.

Mig langar í því sambandi líka að nefna að í 11. gr. frv. er settur tíu ára frestur á leyfin. Við munum að sjálfsögðu skoða það í hv. umhvn. hversu langur sá frestur eigi að vera, hvort þessi frestur sé jafnvel of langur. Hins vegar er gott að allt ferlið, ef allir kærufrestir eru ekki nýttir, skuli vera 12 vikur og verður að teljast af hinu góða og eigi lengri en 43 vikur ef allir kærufrestir eru notaðir.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að að mínu áliti er ekki ástæða til að fara dýpra í málið við 1. umr. Eins og ég segi þá mun hv. umhvn. taka málið til rækilegrar umfjöllunar á næstu dögum og vikum og sjá til þess að frv. til laga um mat á umhverfisáhrifum og ný lög um mat á umhverfisáhrifum verði slík að enginn vafi leiki á um hvaða framkvæmdir séu matsskyldar og að ekki sé boðið upp á það hreinlega, herra forseti, af hæstv. ríkisstjórn að hægt sé að deila um tilteknar framkvæmdir eins og við höfum orðið vitni að á hinu háa Alþingi og efna þar með til ófriðar í samfélaginu.