Fákeppni í sölu matvöru og stöðugleiki í efnahagsmálum

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 15:12:30 (4894)

2000-03-06 15:12:30# 125. lþ. 72.2 fundur 352#B fákeppni í sölu matvöru og stöðugleiki í efnahagsmálum# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrst út af því sem hv. þm. nefndi þá held ég að það sé merki þess að vissir þættir í verðbólgunni hafi farið hjaðnandi eins og við sáum við síðustu mælingu en við höfum hins vegar varað við að björninn er ekki unninn. Enn þá er töluverð hætta í spilunum. Við vitum reyndar líka að stór hluti af verðhækkunum hefur stafað af utanaðkomandi ástæðum sem er hæsta verð á olíuvörum sem við höfum búið við um langa hríð. Einnig hið þriðja, sem hv. þm. nefndi, ég vakti athygli á því á haustdögum að það færi ekki á milli mála að það væru aukin samráð og minni samkeppni á matvörumarkaði. Þessu var heldur fálega tekið og illa tekið af hálfu þeirra aðila sem í hlut áttu. En þær tölur sem við horfðum á eru þess eðlis að þær þurfa engra rannsókna við. Þegar það gerist á sama tíma að verð á matvörum erlendis fer lækkandi og gengið hérlendis fer hækkandi ætti það að leiða til lækkunar verðs á erlendum vörum hér á landi, en þegar það gerist á sama tíma að þetta verð hækkar um 4--6% þá er eitthvað óeðlilegt að gerast. Ég vakti reyndar athygli á litlu dæmi í kringum verslunarmannahelgina í fyrra en þá voru skyndilega engin tilboð auglýst, engin barátta af hálfu verslana um kúnnana. Það segir mér að þarna sé verslunin farin að færast óeðlilega mikið á fáar hendur og menn séu í óðri önn að notfæra sér það. Það er afar þýðingarmikið að fólk átti sig á þessu. Það er það sterkasta en jafnframt tel ég og hef talið að samkeppnislög þyrftu að vera þannig úr garði gerð að menn geti brugðist við slíku en samkeppnislög hafa verið túlkuð þannig fram að þessu að þar sem aðilar hafa komið sér upp ráðandi stöðu sé ekki hægt að grípa inn í málið. Það er eingöngu á vegleiðinni þangað sem samkeppnisyfirvöld telja sig hafa atbeina að slíkum málum.