Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

Mánudaginn 06. mars 2000, kl. 16:20:11 (4919)

2000-03-06 16:20:11# 125. lþ. 72.3 fundur 193. mál: #A starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 125. lþ.

[16:20]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög sérkennilegur málflutningur sem hv. þm. Halldór Blöndal viðhefur úr þessum ræðustól, að fjármunum verkalýðshreyfingarinnar sé beitt núna í flokkspólitískum tilgangi. Mér finnst að hv. þm. verði að rökstyðja mál sitt frekar þegar hann segir slíkt, að verkalýðshreyfingin noti fjármuni sína í því skyni er varðar flokkspólitískan tilgang. Ég er alveg viss um að verkalýðshreyfingin mun ekki samþykkja það. Ég veit ekki til þess að hún sé að nota fjármuni sína í því skyni.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi um þá sem verst eru staddir í þjóðfélaginu og stuðning núverandi ríkisstjórnar við þá, þá væri auðvitað hægt að taka annan tíma til að ræða það en hér gefst í stuttu andsvari. Nægir í því sambandi að benda á áskoranir ýmissa og kröfur sem komið hafa fram hjá lægst launuðu hópunum í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum og missirum í því góðæri sem við höfum búið við þar sem þeir sýna fram á að þeir hafi ekki fengið sinn skerf af því góðæri sem við höfum búið við að undanförnu.