Félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 11:09:45 (5106)

2000-03-09 11:09:45# 125. lþ. 76.2 fundur 398. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[11:09]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

Efni frv. er að á eftir 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna komi nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig er heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna sem eiga við alvarleg fíkniefnavandamál að stríða.

Lagt er til í 2. gr. að lög þessi öðlist þegar gildi. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

Frv. sama efnis var flutt á 123. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú endurflutt óbreytt.

Á undanförnum árum hefur neysla ólöglegra fíkniefna aukist stöðugt og fjöldi einstaklinga ánetjast eiturlyfjum, bæði börn og fullorðnir. Þörfin fyrir meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur er mikil. Meðferðarúrræðum hefur vissulega fjölgað en þau fullnægja þó hvergi nærri þörfinni. Sérstaklega á þetta við hvað varðar meðferðarheimili fyrir börn og ungmenni. Foreldrar ungra fíkniefnaneytenda sem starfa í foreldrasamtökunum Vímulaus æska hafa ítrekað bent á þá nauðsyn sem er fyrir aukna og fjölbreyttari meðferð fyrir börn og ungmenni. Ekki er aðeins um að ræða að fjölga þurfi meðferðarheimilum heldur, og ekki síður, er nauðsyn á möguleikum á langvarandi meðferð fyrir þessa ungu einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Þátttaka foreldra í meðferð barns eða unglings er nauðsynleg. Neysla fíkniefna hefur oftar en ekki staðið yfir í langan tíma áður en til meðferðar kemur. Oft líður nokkur tími þar til vandamálið verður ljóst og síðan getur biðtími orðið langur þar til pláss fæst á meðferðarheimili. Í mörgum tilvikum er sá tími sem ætlaður er til meðferðar hjá fagfólki á meðferðarheimilum of stuttur og foreldrar þurfa að fylgja meðferðinni eftir, halda henni áfram eftir að ungi sjúklingurinn kemur heim. Því er ljóst að mikið álag hvílir á foreldrum ungra fíkniefnaneytenda sem þurfa á stöðugri umönnun og eftirfylgni að halda ef takast á að sigrast á sjúkdómnum og aðstoða börnin og ungmennin við að komast á rétta braut á lífinu. Langt er síðan áfengissýki og eiturlyfjafíkn urðu viðurkennd sem sjúkdómur og nú er varið töluverðum fjármunum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til þeirra stofnana sem veita meðferð við þeim sjúkdómi. Mikið vantar þó á að nægjanlega vel sé að verki staðið, sérstaklega hvað varðar úrræði fyrir yngstu sjúklingana. Því þarf oft að annast þá í heimahúsi um lengri eða skemmri tíma. Heimilt er samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, að greiða bætur til foreldra barna sem þurfa mikla umönnun vegna veikinda eða fötlunar. Ekki er um háar greiðslur að ræða en þó viðurkenningu á því að þessir foreldrar hafa mjög takmarkaða möguleika á því að stunda vinnu utan heimilis og tekjumöguleikar skerðast samfara því að útgjöld aukast vegna veikinda barnsins.

Með frv. þessu er lagt til að foreldrar eða framfærendur þeirra barna að 18 ára aldri sem ánetjast hafa neyslu vímuefna eigi rétt á umönnunargreiðslum vegna veikinda barna sinna. Með því er verið að bæta möguleika þessara foreldra til þess að aðstoða börn sín við að vinna bug á þessum alvarlega sjúkdómi. Ráðherra setji í reglugerð nánari útfærslu á framkvæmd þessa ákvæðis.

Eins og ég nefndi, virðulegi forseti, hefur frv. sama efnis verið lagt fram áður og verið sent út til umsagnar og þrír aðilar skiluðu umsögnum. Í umsögn sem barst frá Samtökum vímulausrar æsku segir, með leyfi forseta:

,,Vímulaus æska og foreldrahópurinn vill hér með senda umsögn um hjálagt frv. Neysla á ólöglegum fíkniefnum hefur aukist á undanförnum árum. Við sem höfum lengi starfað að þessum málum finnum fyrir þessari fjölgun og sérstaklega hvað aldurinn hefur færst niður. Hér áður fyrr var það alveg sérstakt ef hringt var vegna neyslu t.d. 13 ára barna á hassi en nú er það daglegt brauð. Vegna þessa og vegna hækkunar á sjálfræðisaldri í 18 ár vantar nauðsynlega sérhæfð meðferðarheimili fyrir börn sem eru í vanda vegna neyslu áfengis eða á öðrum vímuefnum. Núna getur biðin verið allt að eitt ár eftir meðferð og á Barnaverndarstofu núna er biðlisti 40--50 börn og nokkur þeirra mjög mikið veik. Þetta eru það sjúkir einstaklingar að foreldrar geta ekki verið í vinnu þegar þessi börn eru í neyslu og þegar þau eru orðin mjög sjúk er þetta ærið starf að annast þau ásamt því að hugsa um heimili og jafnvel önnur börn sem fara oft mjög illa út úr því ástandi sem skapast þar sem vímubarn er á heimili. Á hverjum degi hafa samband við okkur foreldrasamtök Vímulausrar æsku, foreldrar og daglega nýir og nýir. Þessir foreldrar eru mjög ráðvilltir og vita ekki hvað þeir eiga að gera eða taka til bragðs. Við rekum fjölskylduráðgjöf og reynum eftir megni að aðstoða þessa foreldra. Við vitum hve mikil vinna þetta er fyrir foreldrana. Síðan þegar barnið loks kemst í meðferð er stríðinu ekki lokið. Barnið kemur yfirleitt alltaf heim aftur og þá er það eftirfylgni. Það er mjög mikilvægt að eftirfylgni sé góð, bæði fyrir unglinginn og alla fjölskylduna því það tekur mjög langan tíma að byggja upp traust fjölskyldubönd aftur.

[11:15]

Á þessu sést að þetta ferli allt getur tekið langan tíma og því erum við sammála að þeir foreldrar sem eiga barn með alvarleg fíkniefnavandamál fái umönnunarbætur. Hér er um að ræða alvarlega veik börn. Það þarf að viðurkenna þetta ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Því mælum við með samþykkt frv.``

Þá barst einnig umsögn frá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Hún er ekki jafnjákvæð og þessi gagnvart frv. en mér finnst eðlilegt að hún komi hér fram. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Vandi ungra fíkniefnaneytenda og fjölskyldna þeirra er mikill eins og m.a. kemur fram í greinargerð með ofangreindu frv. og nauðsynlegt er að bregðast við honum hið fyrsta. Þó verður ekki séð að það sé fær leið til að taka á vandanum að heimila umönnunargreiðslur til framfærenda barna sem eiga við alvarleg fíkniefnavandamál að stríða. Erfitt yrði að meta hvenær barn/unglingur er þannig staddur að foreldrar eigi rétt á greiðslum. Hlutverk foreldris í meðferð er enn fremur óljóst og ekki geta allir foreldrar verið þátttakendur. Því getur m.a. valdið meðvirkni aðstandenda, sem er stundum greind sem sjúkleg einkenni fjölskyldna vímuefnaneytenda.

Álag foreldra við þessar erfiðu aðstæður er margfalt, m.a. vegna óvissu og oft úrræðaleysis. Það er mat Félagsþjónustunnar í Reykjavík að fjármagn sem færist til þessa verkefnis nýttist betur ef því yrði varið til bættrar upplýsingaþjónustu og aukinnar ráðgjafar við fjölskyldur, aukinnar geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga, þjónustu fyrir misþroska og ofvirk börn, sem er sérstakur áhættuhópur í þessum efnum, og síðast en ekki síst til fjölgunar meðferðarúrræðum.``

Undir þetta ritar Lára Björnsdóttir fyrir hönd Félagsþjónustunnar í Reykjavík. Umsögn Barnaverndarstofunnar er á svipuðum nótum, með leyfi forseta:

,,Barnaverndarstofa fellst á að aukning hafi orðið í neyslu vímuefna og rík þörf sé fyrir frekari meðferðarúrræði en nú eru fyrir hendi. Verður Barnaverndarstofa að telja að frumáherslu beri að leggja á að veita fjármunum í að bæta sérhæfða meðferð fyrir börn sem neyta vímuefna. Bæði verði að bæta þjónustutilboð á vegum sveitarfélaga sem þegar er í vanda, svo og huga að sterkum forvörnum af þeirra hálfu. Þá verði að auka meðferðarúrræði á vegum ríkisins til að bæta úr brýnni þörf og tengja það faglegri eftirmeðferð í samvinnu við fjölskyldur barnanna. Að mati Barnaverndarstofu verður að setja slíka opinbera þjónustu í algeran forgang og getur því ekki við þessar aðstæður mælt með því að fjármunum verði veitt svo sem lagt er til í þessu frv.``

Undir þetta ritar fyrir hönd Barnaverndarstofu Hrefna Friðriksdóttir.

Virðulegi forseti. Af þeim þrem umsögnum sem bárust er ein úr þessum reynsluheimi, þ.e. frá foreldrum ungra fíkniefnaneytenda. Hinar eru frá stofnunum, annars vegar á vegum sveitarfélags og hins vegar á vegum ríkisins sem leggja til að fjármunum sé varið á annan hátt. Ég get ekki, virðulegi forseti, fallist á að hægt sé að setja samasemmerki milli þess að fjölga meðferðarúrræðum og þörfinni á því að foreldri sem er með ungt barn sem er í þungri eða harðri neyslu eigi rétt á umönnunarlaunum á þeim tíma sem foreldri er að sinna barni. Það er vitað og allir sem til þekkja viðurkenna að foreldrar ungra fíkniefnaneytenda verða oft fyrir verulegu vinnutapi vegna þessa sjúkdóms og þurfa í mörgum tilvikum að hætta vinnu til þess að fást við þetta alvarlega vandamál sem bitnar ekki bara á sjúklingnum sjálfum, foreldrum, heldur á fjölskyldunni í heild sinni. Þessir foreldrar hafa ekki notið sömu réttinda og foreldrar veikra eða langveikra barna eða fatlaðra barna. Til að mynda hafa þeir ekki fram undir þetta notið ferðastyrks þegar þeir vinna með börnum sínum sem eru í meðferð langan veg frá heimili. Fyrir ári spurði ég hæstv. ráðherra hvort ráðherra hygðist breyta reglugerð sem sneri að því að greiða ferðakostnað til foreldra sem ættu börn í meðferð. Vissulega eru það börn upp að 18 ára aldri mál sem falla undir félmrn. en það er akkúrat það sem er okkar vandi að málefni sem snúa að úrlausnum vegna fíkniefnaneyslu ungra barna og unglinga eru á svona gráu svæði og má auðvitað flokka undir málefni sem lúta að félmrn. en einnig að heilbrrn.

Við þurfum að viðurkenna, ekki bara í orði að þarna er um mjög alvarlegan sjúkdóm að ræða. Við þurfum að viðurkenna það í verki. Ég tel að það sé í sjálfu sér ekki miklum vandkvæðum háð fyrir heimilislækni eða sérfræðing að meta ástand ungs fíkniefnaneytanda hvort það er svo alvarlegt að ástæða sé til þess að foreldri viðkomandi sé heima og sinni einstaklingnum, annaðhvort áður en farið er í meðferð og afeitrun eða eftir að úr meðferðinni er komið. Þau rök sem fram koma í umsögnum frá Reykjavíkurborg eiga ekki rétt á sér þar sem það reynist ekki mjög erfitt að greina hvenær eiturlyfjaneysla er komin á alvarlegt og hættulegt stig og hvenær er þörf á meðferð og aðstoð og hvenær er þörf á innlögnum á sjúkrastofnanir jafnvel eftir að afeitrun hefur átt sér stað. Við erum því miður að horfa upp á vaxandi vandamál í þessum efnum þar sem ungir krakkar neyta í auknum mæli fíkniefna og eru komin í neyslu mjög harðra efna mjög ung. Þetta er vandamál sem við þekktum ekki áður en hefur verið rætt oft áður hér og þær afleiðingar sem þetta hefur.

Það er nauðsynlegt að foreldri taki á vandanum strax þegar upp kemst og vinni úr honum með barninu. Það er nauðsynlegt að þeir geri það á heimilinu, það er nauðsynlegt að þeir geri það áður en til meðferðar kemur. Á meðan á meðferð stendur er ekki síður nauðsynlegt að foreldrar hafi möguleika til þess að sinna barni. Vitað er að það eru mörg önnur vandamál en neyslan sjálf sem fylgja þessum sjúkdómi. Það getur verið um að ræða geðræna sjúkdóma. Þessi börn hafa verið greind með geðræna sjúkdóma og þau þurfa á aðstoð sérfræðinga á því sviði að halda jafnframt því að leita til sálfræðings og félagsráðgjafa til þess að vinna úr vandamálum sem fylgja harðri fíkniefnaneyslu og fylgikvillum hennar. Þessi meðferð, þessi eftirfylgni og eftirmeðferð sem á sér stað inni á heimilunum tekur oft mjög langan tíma, er mjög kostnaðarsöm fyrir foreldrana. Foreldrar verða eins og ég nefndi hér áðan að minnka við sig vinnu, jafnvel hætta vinnu til þess að sinna þessum unga sjúklingi í fjölskyldunni. Hér er einfaldlega verið að leggja til, að settum reglum sem heilbrrh. ákveður að greidd séu umönnunarlaun til þessara foreldra til þess að auðvelda þeim að takast á við þetta mikla vandamál og þessi erfiðu veikindi. Það er löngu kominn tími til að við, og þá er ég ekki að beina orðum mínum neitt sérstaklega til hæstv. heilbrrh., vegna þess að það er langt síðan heilbrrh. viðurkenndi þennan sjúkdóm og talaði um fíkniefnaneyslu sem sjúkdóm, en það er kannski löngu kominn tími til að þjóðfélagið viðurkenni þennan alvarlega sjúkdóm sem allt of stórir hópar barna og unglinga þjást af og að tekið sé á þessu vandamáli. Þarna er aðeins einn liður af mörgu sem þyrfti að taka á varðandi foreldra þessara barna. Ég nefndi ferðastyrkina þannig að þau geti tekið þátt í meðferðinni. Ég held að það sé enn þannig að ungur fíkniefnaneytandi sem fer í meðferð út á land, t.d. héðan af höfuðborgarsvæðinu, fer í meðferð norður, austur eða vestur eða á hvaða meðferðarheimili sem til staðar er, að ef um er að ræða einstæða foreldra sem fá greidd meðlög vegna barna, mæðralaun eða feðralaun þá missa þeir þessar greiðslur. Þær renna til meðferðarheimilisins. Möguleikar foreldranna til þess að taka þátt í meðferðinni auk þess að veita barninu það sem þarf á meðan á meðferð stendur eru mjög litlir. Þess vegna tel ég að það þurfi að taka heildstætt á málefnum þessa hóps og það sé liður í því að bæta það ástand sem ríkir. Vissulega get ég tekið undir það sem kemur fram í umsögn frá Barnaverndarstofu og eins frá Félagsþjónustunni í Reykjavík að það þarf að efla þessa þjónustu á öllum sviðum. En við getum ekki litið fram hjá því að það er mjög stór þáttur í því að vel til takist að meðferðarúrræði sem til staðar eru hjá Barnaverndarstofu og sú aðstoð sem til staðar er hjá félagsmálayfirvöldum sveitarfélaganna, að þessi aðstoð nýtist, þ.e. að foreldrarnir geti tekið virkan þátt.

Þetta frv. sem við flytjum, sú sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, tekur á einum þessara þátta, þ.e. að foreldrar sem eiga börn sem eru í mjög harðri neyslu fái umönnunarlaun en þó því aðeins að það séu settar um það mjög ákveðnar reglur hverjir það eru og eftir hverju skuli farið ef slíkar bætur eru greiddar. Um leið og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún vilji leggja þessu máli lið, þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessar reglur um ferðakostnað hafi verið endurskoðaðar og hvort það eigi að taka heildstætt á málefnum foreldra þessara ungu sjúklinga vegna þess að eins og ég nefndi áðan að ungur fíkniefnaneytandi er auðvitað sjúklingur og ætti að falla undir heilbrigðiskerfið fyrst og fremst og þau úrræði sem þar eru.