Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 13:50:55 (5124)

2000-03-09 13:50:55# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, GE
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að ræða málin út frá því að í upphafi vega þegar þetta mál var lagt fram voru settar fram vinnureglur sem gert var að vinna eftir og ég tel að í einu og öllu hafi verið farið eftir þeim lögum sem sett voru á sínum tíma. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með að hæstv. landbrh. leggur þetta frv. fram og ætlar því líftíma til þriggja ára til að ljúka því verkefni sem þegar er hafið eins og komið hefur fram í árlegum skýrslum þar sem gerð hefur verið nákvæm grein fyrir ráðstöfunum fjármuna á hverju einasta ári til Alþingis. Öllum hefur því mátt ljóst vera hvernig fjármunum hefur verið ráðstafað þrátt fyrir að ítrekað hafi verið spurt, ég segi ítrekað, um það af hálfu ákveðinna aðila hvernig þessu verki hafi fram undið.

Ég tel að mikið hafi áunnist í þessu verki sem er í höndum Áforms en þó er verulegt verkefni fram undan við að fylgja þeim árangri eftir sem hefur náðst. Um það bil 60% af þeim fjármunum sem verkefninu hafa verið ætlaðir hefur verið varið til lífrænna rannsókna og lífrænnar framleiðslu. Það kemur fram í skýrslum ef fólk aðeins lítur yfir þær og reynir að átta sig á hvar það stendur. (Gripið fram í.) En það fer auðvitað eftir því hvort fólk hefur haft tíma til að líta yfir þau verkefni sem það er að spyrja um og kynna sér.

Lítið magn lífrænna og vistvænna afurða er í umferð hér á landi. Reynt hefur verið að ýta undir slíka framleiðslu og það er eðlilegt að varfærni hafi gætt hjá bændum við að fara út í þessa framleiðslu vegna þess að þeir vilja auðvitað sjá fram á hvaða möguleika þeir eiga ef þeir leggja út í að breyta búum sínum frá hefðbundnum búskap í að fá vottaðan búskap, sérstaklega ef menn fara út í það sem heitir lífrænt og einnig ef menn vilja fá vistvæna vottun sem reglugerð er til fyrir á Íslandi.

Ég tel að vaxtarmöguleikar íslenskrar sauðfjárræktar byggist mjög mikið á því hvort takist að hefja verulegt átak í framleiðslu lífræns dilkakjöts. Það hefur aðeins komið á markað en árlega síðustu þrjú árin hefur verið óskað eftir að fá allt að 100 tonn á Bretlandsmarkað þar sem boðist hefur verð sem er a.m.k. 25% hærra en það verð sem hefðbundnir bændur hafa fengið fyrir afurðir sínar. Það er því mikið að sækja og að miklu að vinna og ég tel að Áform --- það er nafnið á átaksverkefninu --- hafi unnið hreint og beint að þessum verkefnum og staðið mjög vel við það. Mér kemur reyndar, herra forseti, mjög á óvart sú gagnrýni sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur uppi og gat í rauninni aðeins tiltekið eitt verkefni sem hún taldi gagnrýnivert og það var stuðningur við Græna herinn sem fór um landið og hvatti til umhverfisbóta og m.a. náði þeirri vakningu í Hrísey ásamt átaksverkefninu Áformi að stefna að því að gera eyjuna lífræna eyju. Það má vel vera að það sé einskis virði. Það má líka vel vera að sú uppbygging sem varð í kjölfar þeirrar ferðar sé einskis virði en ég held að mörg þau bæjarfélög sem fengu slíkar heimsóknir þakki fyrir þær, lýsi yfir ánægju með þær og sjái nokkurn árangur þó svo að vel geti verið að sums staðar séu menn óánægðir en í meiri hluta tilvika held ég að menn hafi lýst yfir ánægju með þær aðgerðir sem þarna var gripið til og a.m.k. í sumum bæjum á Íslandi vakti þetta sérstaka athygli. En það er auðvitað ánægjulegt að af rúmlega 50 verkefnum sem hafa verið sett í gang og studd skuli aðeins vera eitt verkefni sem er gagnrýnivert. Það er mjög ánægjulegt hlutfall og ég vil þakka fyrir að benda á það. Ég hafði ekki komið auga á að það væri aðeins eitt verkefni sem væri gagnrýnivert.

En til að vitna í það sem hefur leitt af átaksverkefninu, þá hefur verið unnið að eflingu lífrænnar framleiðslu og kemur það best í ljós ef litið er til þess hvað hefur verið unnið á Akri. Þar hefur verið unnið að stuðningi við lífræna ræktun á grænmeti sem hefur skilað miklum árangri og þar hefur verið sýnt fram á að unnt er að ná fullkomnum árangri í lífrænni ræktun fyrir utan það að geta framleitt vörur sem fólk sækist eindregið eftir.

Ráðamenn í Hrísey, bara til að vitna aftur í það málefni, leituðu til átaksverkefnisins um aðstoð við að kanna möguleika á að fá eyjuna viðurkennda sem lífræna. Áform hefur unnið að þessu verkefni og þeim verkefnum er skipt í áfanga og þeir sem þar eru munu vinna áfram að verkefnum í samvinnu við heimamenn með það markmið fyrir augum sem ég nefndi áðan.

Ég ætlaði, herra forseti, ekki að verja það neitt sérstaklega sem Áform eða átaksverkefnið hefur verið að vinna en það má nefna að niðurstöður rannsókna á gæðum og efnainnihaldi dilkakjöts og grænmetis hafa þegar haft mikla þýðingu við markaðssetningu slíkra afurða. Niðurstöður rannsókna leiða í ljós að hreinleiki íslensks grænmetis umfram innflutt er orðinn þannig að hægt er að styrkja markaðsstöðu þess t.d. í samkeppni við innflutt grænmeti.

Ég ætla ekki að lýsa því í löngu máli hver árangur hefur orðið af stuðningi við rannsóknir á íslenskum lækningajurtum. Þar er mikils að vænta og ég tel að það sé eitt það markverðasta sem unnið hefur verið að. Ég vil bara aðeins minna á að í morgun var Ævar Jóhannesson nefndur og það verk sem hann hefur verið að vinna var stutt af átaksverkefninu og menn vænta mjög mikils af þeim rannsóknum sem prófessor Sigmundur Guðbjarnason er að vinna við þær jurtir sem þar eru notaðar. Möguleikar íslenskra bænda til að rækta lækningajurtir er akur sem menn sjá að er tiltölulega aðgengilegt að vinna á og ég held að átaksverkefnið muni beita sér í vaxandi mæli fyrir því að þar skilist árangur.

Ég vil, herra forseti, taka mjög undir orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur þar sem hún segir að mikilvægt sé að halda áfram því starfi sem unnið hefur verið og þar talar bóndi sem þekkir og veit hvaða árangur hefur náðst, ekki síst í því umhverfi þar sem hún vinnur, og það er hárrétt að tryggja þarf lagalega umgjörð og samræmingu íslenskra reglna og laga að alþjóðlegum stöðlum. Ég vil ítreka að nýting íslenskra jurta til lyfjagerðar er eitt af því sem þetta átaksverkefni hefur unnið að og unnið með. Þar er að verða umtalsverður árangur og ég tel mjög mikilvægt að haldið áfram verði á þeirri braut. Þess vegna fagna ég frv. hæstv. landbrh. og mun styðja það og ekki síst ef menn ná því í samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, að þar verði miðstöð lífrænnar ræktunar. Að því eigum við að stefna og verið er að vinna að því og gæðastýrng í landbúnaði mun byggja á því verki sem formenn þingflokka hófu 1994 með framsetningu tillögu um þetta verkefni. Ég sé framtíðina þannig fyrir mér að eftir 2--3 ár muni staðan verða þannig að þá muni verða rými fyrir ákveðna framkvæmdanefnd sem annast það sem Áform -- átaksverkefni hefur komið á laggirnar og ég á von á að sá árangur sem gerð hefur verið grein fyrir verði betur metinn af flestum sem að koma og a.m.k. öðruvísi en hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.