Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 14:25:51 (5131)

2000-03-09 14:25:51# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir þetta ákvæði um fræðslu, hollustu og gæði, vistvæna og lífræna framleiðslu verð ég að segja að það hvarflar ekki að mér að átakið hafi getað veitt öllum styrk sem eru einhvers staðar á þessu ferli frá framleiðslu jurta til lækninga og upp í allt annað, upp í þess vegna útgáfubæklinga og annað sem lýtur að fræðslu. Það sem ég er að gagnrýna er að ég er alls ekki sammála því. Það kemur mér mjög á óvart að lækingajurtir eða rannsóknir til þess að búa til læknislyf skuli þurfa að sækja inn í þetta átak. Það kemur mér mjög á óvart og ég er vonsvikin af því að ég var svo hrifin af því að þetta verkefni væri farið í gang að það skyldi vera þetta átak og það þyrfti að setja peninga í það. Ekkert af því sem þingmaðurinn sagði fær mig til að breyta þeirri skoðun að mér finnst það fráleitt að hreinsunarátak Græna hersins hafi fengið pening úr þessum sjóði. Það er skoðun mín.