Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Fimmtudaginn 09. mars 2000, kl. 15:12:57 (5147)

2000-03-09 15:12:57# 125. lþ. 76.4 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 125. lþ.

[15:12]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu stutt en afskaplega merkilegt frv. sem snýr að því efnislega að veita úr ríkissjóði, eins og hér hefur komið fram, árlega 25 millj. kr. af fjárlögum til átaksverkefnis í landbúnaði, sérstaklega með markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða í huga. Ég tel að þetta sé þrátt fyrir afskaplega innblásna ræðu hv. síðasta ræðumanns, hið merkasta frv. og afskaplega gott og ekki síst sú skýrsla sem er á bak við frv., skýrsla um árangur af átaksverkefninu. Ég held að segja megi um þá skýrslu að henni verði best lýst með þekktu orðatiltæki að mjór sé mikils vísir.

Ég held að megi líta svo á að með þessu sé verið að fjárfesta í þróunarstarfi, fjárfesta í rannsóknum og niðurstaðan af því átaksverkefni sem fram kemur í skýrslunni sýnir svo ekki verður um villst að vel hefur heppnast og markmið þessa frv., það er a.m.k. skilningur minn, sé að þróa þessi verkefni áfram á grundvelli ágætrar reynslu sem fengin er. Það snýst með öðrum orðum um markaðssókn og hágæðavöru.

Ég held líka, herra forseti, að vert sé að vekja athygli á því vegna orða sem hér hafa fallið að samkvæmt úttekt OECD verja íslensk stjórvöld, og einkageirinn ekki síður, minna hlutfallslega til rannsókna en almennt gerist innan ríkja OECD. Við erum mjög neðarlega á blaði þar hvað varðar fjárveitingar til nýsköpunar, til rannsókna, og gildir það hvort tveggja um einkageirann sem hið opinbera. Þess vegna hlýtur það að vera fagnaðarefni þegar stigið er fram til þess að fjárfesta í framförum í gegnum rannsóknir og nýsköpun.

[15:15]

Þetta snýst um markaðssókn á hágæðavöru eins og fram hefur komið hjá flestum ræðumönnum sem hér hafa tekið til máls, að markaðssetja mjög heilbrigða hágæðavöru úr landbúnaði. Og hægt er að taka undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram að slík vara er að verða hrein lúxusvara í veröldinni í dag. Við heyrum fréttir af kúariðu og það hefur komið fram hjá einstaka ræðumönnum hvernig jafnvel skolp er notað sem næring í landbúnaði fyrir dýr og skepnur, við þekkjum að hormónanotkun er víða í heiminum og fáum fleiri hryllingssögur af þessum toga, sem má segja í stuttu máli að séu farnar að ógna daglegu lífi í hinum vestræna heimi, jafnvel heilbrigðiskerfinu vegna þess að ekki einasta séu t.d. hormónagjafir að breyta vaxtarlagi heilu þjóðanna, heldur eru þær farnar að hafa veruleg áhrif á ónæmiskerfi heilla þjóða. Og það er sérstaða okkar, herra forseti, að okkur hefur blessunarlega tekist að varðveita heilbrigði og hreinleika í íslenskum landbúnaði umfram það sem almennt þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar og hryllingssögur berast nánast daglega utan úr heimi um það sem kalla má slys í landbúnaði með alvarlegum afleiðingum.

Vissulega hefur þó fallið blettur á þennan hreinleika okkar eins og fram kom í ræðu hæstv. landbrh. við setningu búnaðarþings og er ánægjulegt til þess að vita að gegn þeim blettum skuli ráðist strax. Besta vörnin er auðvitað sú að sækja fram og uppfylla þar með skyldur okkar, þær skyldur að standa vörð um heilbrigði íslensks landbúnaðar og heilbrigði Íslands má segja.

Ég held að í þessu tilviki sé rétt að þakka hæstv. landbrh. fyrir þá djarflegu ákvörðun að takmarka kadmíuminnihald í áburði hér almennt. Án slíkrar ákvörðunar og með því að leyfa áframhaldandi tiltölulega hátt kadmiuminnihald í áburði og í ljósi þess að innflutningur á áburði hefur farið mjög vaxandi, þá hefði getað verið í uppsiglingu eitt mesta umhverfisslys í sögu þjóðarinnar, sem hefði líklega aldrei verið bætt. Og jarðvegurinn er jú grundvöllur að heilbrigðum landbúnaði og þess vegna er þetta djarfmannleg og þakkarverð ákvörðun.

Við ætlum að halda áfram að rækta lífrænt og við ætlum að auka þátt okkar í lífrænni og vistvænni ræktun. Um það snýst þetta. Landbúnaðurinn stendur að mörgu leyti á tímamótum í dag, m.a. vegna breyttra neysluvenja þjóðarinnar, en það er ánægjulegt að sjá hvernig starfsgreinin sjálf er hægt og hægt að laga sig að breyttu umhverfi, breyttum áherslum neytandans og er að sækja fram. Slík breytingaskeið eru auðvitað alltaf erfiðleikum bundin, þetta eru tilfinningamál og breytingaskeiðið sjálft kallar oft á erfiðleika, en ekki verður annað séð en að bjartsýni ríki innan stéttarinnar og í rauninni sé bjart fram undan hjá greininni.

Ég ætla ekki að orðlengja meira um þetta, herra forseti, en vil segja eitt að lokum. Landbúnaður snýst ekki bara um að framleiða matvæli, lúxusmatvöru, eins og við ætlum að gera áfram, heldur snýst þetta um að neytandinn kaupi. Hér hefur mönnum orðið nokkuð tíðrætt um útflutning og markaðssetningu og vissulega má taka undir þau sjónarmið að þar séu mikil sóknarfæri fyrir hreinar íslenskar landbúnaðarafurðir, ekki síst í ljósi þeirra mengunarslysa sem orðið hafa í hinum vestræna heimi hvað varðar landbúnaðinn eins og hér hefur verið fjallað um. Þrátt fyrir þetta, herra forseti, hefur okkur gengið heldur stirðlega að koma þessari lúxusvöru á góðu verði á framfæri erlendis. Þó að það sé ekki árangurslaust með öllu er óhætt að segja í það heila tekið, miðað við þær væntingar sem menn hafa haft, að við höfum ekki náð þeim árangri sem til var ætlast. En þá er auðvitað mikilvægt að gefast ekki upp.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra --- þó að hann sé nú ekki sölumaður þá fylgist hann vel með þessum málum --- hvers vegna í ósköpunum menn hafi ekki nýtt sér það þróaða og sterka sölukerfi sem sölusamtök í fiskvinnslu hafa komið sér upp víða um heim og náð undraverðum árangri á matvælamarkaði, bæði austan hafs og vestan og í Asíu, í mjög harðri samkeppni við fiskframleiðendur víða annars staðar? Þetta er sami markaðurinn, þetta er matvælamarkaðurinn. Ég held að íslenskar landbúnaðarafurðir séu ekki í beinni samkeppni við fiskafurðir okkar og þess vegna hefur maður oft spurt sjálfan sig hvers vegna í ósköpunum við nýtum okkur ekki það sölukerfi sem verið er að vinna með á matvælamörkuðum um allan heim og sem hefur skilað ótrúlega góðum árangri og hver vegna við nýtum okkur ekki þær sölurásir sem þegar eru til staðar? Gaman væri að heyra hæstv. landbrh., sem hefur mikla yfirsýn og mikinn áhuga á þessum málum, glíma við að svara þeirri spurningu. En ég ítreka að lokum að ég lýsi yfir stuðningi við frv. Ég tel að hér sé verið að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun sem leiði til framfara fyrir landbúnað og þar af leiðandi íslenskt þjóðfélag.