2000-03-15 13:50:09# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Í tengslum við umræðu um tryggingabætur þarf að huga að mörgum fleiri þáttum sem tengjast velferðarkerfi okkar en tryggingabótunum einum og sér. Það er þekkt staðreynd að bótakerfi Tryggingastofnunar er nokkuð flókið. Við bætist að lífeyriskerfið og skattkerfið spilar inn í hið almenna tryggingabótakerfi, en einnig kemur til bótakerfi og félagsþjónustukerfi sveitarfélaganna.

Á mánudaginn var ræddum við einmitt nýtt frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem m.a. er verið að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og skerpa enn á skyldum sveitarfélaga til félagsþjónustu og réttindum fatlaðra á ýmsum sviðum. Fyrir liggur einnig að ræða frv. um réttindagæslu fatlaðra, um Greiningar- og ráðgjafarstöðina, um vinnumarkaðsaðgerðir vegna atvinnumála fatlaðra. Öll þessi atriði skipta bótaþega almannatrygginga mjög miklu máli. Það er sem sagt í gangi stöðug vinna á vegum ríkisstjórnarinnar og Alþingis við að bæta okkar mikilvæga velferðarsamfélag.

Þess hefur verið gætt að bætur almannatrygginga hafi hækkað til samræmis við launavísitöluna og í sumum bótaflokkum umfram launavísitölu eins og lágmarksbætur á síðasta kjörtímabili sem hækkuðu um 22,5%. Til viðbótar var varið 690 millj. kr. til að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins, hækka frítekjumörk og bæta hag hinna verst settu. Í yfirlýsingum ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga nú er því lýst yfir að bæturnar muni hækka í takt við umsamdar almennar launahækkanir á samningstímabilinu en þó meira en launahækkanir á þessu ári.

Við Íslendingar höfum byggt upp lífeyrissjóðakerfi sem er talið til þess besta sem gerist í vestrænum samfélögum og líta margir öfundaraugum til okkar hvað það varðar. Þegar tímar líða fram mun það taka við miklum hluta almannabótakerfisins.

Uppbygging tryggingakerfisins verður að vera í sífelldri endurskoðun. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er markmið þess efnis að endurskoða almannatryggingakerfið og samspil þess við skattkerfið, einnig að framkvæmd verði einfölduð og samræmd til hagsbóta fyrir bótaþega. Einnig er lögð áhersla á að tryggja sérstaklega hag öryrkja, fatlaðra og aldraðra sem lægstar tekjur hafa.

Fjarri fer að við séum komin með hið endanlega fyrirmyndarríki en við erum vissulega í stöðugri vinnu við að finna lausnir á því.