Tækjabúnaður til að minnka koltvísýringsmengun

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:22:58 (5316)

2000-03-15 14:22:58# 125. lþ. 80.2 fundur 330. mál: #A tækjabúnaður til að minnka koltvísýringsmengun# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. samgrh. Reyndar var ekki auðvelt að átta sig á hver væri helst til þess bær að veita svör við þeim spurningum sem ég ber fram. Segja má að efni spurninganna heyri til embætta þriggja ráðuneyta, þ.e. samgöngu-, dóms- og umhverfisráðuneytis. En það var samkomulag um að þessi háttur var hafður á og ég þakka hæstv. samgrh. fyrir að taka að sér verkefnið.

Ljóst hefur verið um nokkurra ára skeið að unnt er að minnka mengun frá vélum skipa og vélum ökutækja knúnum dísil-, svartolíu- og bensínvélum. Þannig er mál með vexti að ekki er einvörðungu um minnkun mengunar að ræða heldur um allmikinn sparnað í eldsneytisnotkun sem vegna samlegðaráhrifa þessara tveggja þátta gæti auðveldað Íslendingum staðfestingu Ríó-sáttmálans.

Það sem tengist málinu einnig er að nýlega kom fram staðfesting á því sem undirritaður hélt fram í utandagskrárumræðum fyrir þremur árum að hvarfakútar væru í mörgum tilfellum mengunarvaldur þar sem þeir skila ekki árangri fyrr en vélin er komin í vinnsluhita. Fram að þeim tíma kalla þeir á aukna notkun eldsneytis. Með leyfi forseta vitna ég til Morgunblaðsgreinar í bílablaði Morgunblaðsins 6. febrúar sl. Þetta þýðir að stór hluti reykvíska bílaflotans mengar meira innan borgar með hvarfakút en án hans. En ef í notkun væri samhliða Comtec-brennsluhvati með hvarfakút gegnir allt öðru máli eftir því sem upplýsingar liggja fyrir um. Því hef ég sett fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgrh.

Það hefur verið staðfest af ríkisstjórn að 30% af allri koltvísýringsmengun á Íslandi stafi frá skipum og ökutækjum. Ef ríkisstjórnin hefur áhuga á minnkun losunar eldsneytis og mengunar frá dísil- og bensínvélum, hvers vegna hefur þá ekki verið athugað hjá fyrirtækinu sem ég vitnaði til árangurinn af tilraun þeirra og notkun þeirra tækjabúnaðar? Hefur hæstv. samgrh. kannað eða kemur til greina að skapa möguleika á fjárhagsstuðningi til fyrirtækja sem vilja nota tækni til minnkunar mengun í formi lána með lágum vöxtum eða með sértökum skattaaðgerðum?