Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:27:26 (5345)

2000-03-15 15:27:26# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að taka þetta mál hér upp og ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir að mörgu leyti ágæt svör. Það sem hefur komið hérna fram og vekur sérstaka athygli er þessi óskaplega mikli fjöldi íslenskra unglingsstúlkna sem verður þungaður og hve samanburður er óhagstæður við nálæg lönd. Og þá verður fyrst fyrir að spyrja: Hvað veldur þessu? Það eru auðvitað margir þættir eins og hér hefur komið fram, en það er ekki síst að ekki hefur náðst að framfylgja eins og til stóð löggjöf frá 1975 um kynlífsfræðslu. Það er ágætt út af fyrir sig að hér séu leyfðar fóstureyðingar og ég er mjög hlynnt því, en það er mjög alvarleg staða ef fjöldi ungra kvenna er að fara í fóstureyðingar vegna þess að hann hefur ekki vit á eða hefur ekki nægilegt aðgengi að getnaðarvörnum.