Löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 16:07:54 (5366)

2000-03-15 16:07:54# 125. lþ. 80.9 fundur 411. mál: #A löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör og eins þakka ég þeim sem hafa lagt orð í belg í umræðunni. Ég hef í dag haft samband við bæjarstjórann á Seltjarnarnesi sem er annar af þeim sem skrifuðu undir umrætt bréf. Það kemur skýrt fram í máli hans að hann er ánægður með þá úrlausn sem hefur fengist fyrir hönd Seltjarnarness. Það mál hefur því verið lukkulega afgreitt. Sömuleiðis hef ég haft samband við ýmsa aðila í Mosfellsbæ. Það hefur komið fram að þar er mikil ánægja með þann forvarnafulltrúa sem var ráðinn og einn af viðmælendum mínum lýsti því ekki sem neinu minna en kraftaverki hve vel hefði tekist vel til og mál hefðu snúist mjög til betri vegar síðan hann kom til starfa nú um áramótin. En ég held að ég sé ekkert að misskilja það að það er gríðarleg óánægja enn þá í Mosfellsbænum með löggæsluna og fólk leggur ekki sama skilning í grenndarlöggæslu og hæstv. ráðherra, en við erum samt afskaplega þakklát fyrir áhuga hennar á því máli. Fólk lítur á það sem grenndarlöggæslu sem fer fram frá hverfislögreglustöðinni. Þarna er ekki um það að ræða í Mosfellsbænum á kvöldin og um helgar og það er óánægja með það. Að vísu hafa verið þarna ákveðnir tilburðir til að bæta úr en ég held að það þurfi enn að gera betur til að koma í veg fyrir frekari misskilning og koma til móts við íbúa bæjarins sem eru að sínu leyti tilbúnir til að leggja sig alla fram sem sést á því hve hefur verið almenn og góð þátttaka hefur verið í foreldrarölti þar að undanförnu.