Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:21:36 (5382)

2000-03-16 11:21:36# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ef ég kynni sanskrít þá mundi ég sennilega reyna að tala hana í næstu ræðu og láta á það reyna hvort hv. þm. Kristján Pálsson skildi mig ekki betur þá. Ég hugsa að hann gerði það. Hann skilur a.m.k. engan veginn venjulega íslensku og hef ég þó haft orð fyrir það að tala hana alveg þokkalega skýrt. En af einhverjum furðulegum ástæðum heyrir og skilur hv. þm. Kristján Pálsson ævinlega eitthvað allt allt annað út úr ræðum mínum, eða iðulega, og reyndar fleiri manna en það sem sagt er. (KPál: Það er erfitt að viðurkenna þetta.) Þetta er þessi kostulega árátta eða eiginleiki eða hvað við viljum kalla það sem er eitt af aðalsmerkjum hv. þm. Kristjáns Pálssonar hér í rökræðum.

Ég nefndi starfsfólkið alls ekki á nafn í þessu sambandi. Það eina sem ég vék að í því sambandi var að auðvitað hefði það talsverð staðbundin áhrif á Suðurnesjum ef að drægi úr þessum umsvifum eða herinn færi og þá þyrfti að sjálfsögðu að bregðast við því. Að öðru leyti fólst ekkert í mínu máli, og ég fullyrði það, (KPál: Hvert á að senda fólkið?) --- og ég bið hv. þm. að lesa aftur ræðu mína þegar hún verður vélrituð --- sem gefur tilefni til að túlka sem niðrandi ummæli í garð þessa ágæta fólks sem þarna vinnur og að sjálfsögðu þarf alls ekki að draga neitt samasemmerki þar á milli þó menn hafi þessa grundvallarafstöðu og hins. Ég á marga ágæta kunningja í þessum hópi og frændur og ég hef rætt við marga þeirra og þar upp til hópa gera menn alveg greinarmun á þessu sjálfir. Ég get upplýst hv. þm. Kristján Pálsson um það að margir andstæðingar erlendrar hersetu eru í þessum hópi starfsmanna þó að þeir fari kannski ekki hátt með það og ég er alls ekki viss um að allir sem þarna vinna kjósi hv. þm. þó að hann rembist mikið við það að reyna að fá þá til þess.

Varðandi mikilvægi þessara umsvifa þá eru þau sem betur fer á mikilli niðurleið. Ef við lítum 15--20 ár til baka þá hefur vægi þessara hluta í þjóðarbúskapnum, í útflutningstekjum og landsframleiðslu, um það bil helmingast. Ég bendi hv. þingmanni á að skoða töflu sem fylgir með þáltill. okkar Ögmundar Jónassonar í því sambandi.