Rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 15:13:25 (5424)

2000-03-16 15:13:25# 125. lþ. 81.9 fundur 391. mál: #A rannsókn á mengun við Keflavíkurflugvöll# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þetta svar. Ég skynja það á svari hans að fullur vilji er fyrir því að gera þetta eins fljótt og vel og kostur er. Það er svo sannarlega sannleikanum samkvæmt að það er orðið mjög til vansa hvernig þetta svæði hefur þróast í algjörri andstöðu við aðra byggð í kring. Þarna eru tankar ónotaðir. Þarna eru leiðslur í jörðu sem þarf að fjarlægja og ýmsilegt fleira þannig að þetta stingur mjög í stúf við allt annað umhverfi. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta á að geta orðið mikil vin. Undir klettunum þarna er gróðursælt utan girðingarinnar þannig að þetta er allt saman mögulegt.

Ég get líka tekið undir það með hæstv. ráðherra að í dag er skipulagið orðið þannig að á tveim stöðum liggja vegir þannig að þeir enda á girðingunni. Og syðri endi Reykjaneshallarinnar, sem var tekin í notkun fyrir nokkrum vikum, liggur að girðingunni þannig að allir sjá hvað þetta er allt orðið tæpt og erfitt í raun fyrir skipulagsyfirvöld og bæjaryfirvöld að eiga við málið.

Ég fagna því að þetta skuli þó vera komið svona nokkurn veginn á lokastig og við sjáum fyrir að á næstu mánuðum, eða hvað eigum við að segja, verði unnið að því að þetta svæði verði afhent bænum og ég vona að það dragist nú a.m.k. ekki lengur en svo að þetta verði tilbúið næsta sumar.