Sjálfstæði Færeyja

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:06:40 (5444)

2000-03-20 15:06:40# 125. lþ. 82.1 fundur 387#B sjálfstæði Færeyja# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin. Mér er vel ljóst að það er tæplega við hæfi að svara þessu öðruvísi eða ekki við því að búast að hæstv. forsrh. gangi lengra en svo að lýsa því yfir að yrði eftir því leitað þá værum við Íslendingar tilbúnir til að gegna þarna milligönguhlutverki. Ég vísa einnig í því sambandi til þeirrar ríku hefðar sem er fyrir því í samstarfi Norðurlandaþjóða að bjóða fram aðstoð eða miðla málum ef upp koma vandamál í samskiptum af því tagi sem við erum hér að tala um. Fyrir því er löng hefð að hinar norrænu þjóðir reyni að stuðla að góðum samskiptum og farsælum málalyktum þegar uppi eru viðkvæm samskiptamál af því tagi sem þarna eru augljóslega í núverandi viðræðum, eða sem áttu að verða, milli færeyskra ráðamanna og danskra stjórnvalda um þessi mál.

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og ég lýsi því fyrir mitt leyti yfir að ég held að það sé engin spurning að við Íslendingar eigum að láta það liggja alveg ljóst fyrir að við séum tilbúnir til þess að aðstoða eftir því sem við frekast gætum í þessum efnum.