Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:52:45 (5465)

2000-03-20 15:52:45# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég er honum sammála að öllu leyti. Ég tel að þetta frv. sé skynsamleg ráðstöfun hjá hæstv. sjútvrh. í ljósi allra aðstæðna, enda lá það reyndar hér fyrir í frumvarpsformi flutt af þeim hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og Árna Steinari Jóhannssyni.

Með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi eru, þeirri óvissu sem ríkir í málefnum sjávarútvegsins og hvað varðar sjálfan grundvöll kvótakerfisins væri auðvitað afar sérkennilegt ef menn létu eftir sem áður þennan hluta fiskiskipaflotans sem sótt hefur í öðru fyrirkomulagi einnig ganga inn í þetta sama kvótakerfi við þær aðstæður. Ég minni líka á, herra forseti, að sú niðurstaða sem varð í janúarmánuði 1999 var mjög umdeild og að mörgu leyti tókst ekki að mínu mati nógu vel til þegar þeim hluta smábátaflotans sem hafði sótt á grundvelli sóknartakmarkana eða veiðidaga var gert að velja eina ferðina enn í þvinguðu vali og búinn var til fjórði ef ekki fimmti flokkurinn af fiskveiðistjórnarfyrirkomulagi fyrir þann hluta flotans.

Mergurinn málsins er sá, herra forseti, að svo oft og með svo vafasömum hætti er búið að hlutast til um fiskveiðistjórn þessa hluta flotans, minnstu bátanna, og svo mörg eru kerfin orðin og svo oft hafa menn þurft að velja undir þvinguðum aðstæðum að þar er orðin ærin mismunun á og staða aðila mjög ólík. Eina lausnin út úr því væri að sjálfsögðu að stokka spilin algjörlega upp á nýtt og taka upp nýtt samræmt fiskveiðistjórnarkerfi fyrir alla báta af þessari stærð og fyrir allan smábáta- og bátaflotann. Fyrir því eru öll rök, herra forseti, að það mætti gera án þess að það ylli nokkurri röskun eða væri á kostnað annarra í sjálfu sér.

Ég sæi fyrir mér að slíkt kerfi væri mun einfaldara og með minni takmörkunum en það sem nú er, fyrst og fremst þá í formi óframseljanlegra hámarka eða þaka varðandi mikilvægustu nytjastofnana en að öðru leyti mundi þessi hluti flotans sækja með tiltölulega frjálsum hætti. Það er það sem hentar best aðstæðum og á best við og sem mætir mismunandi aðstæðum hvað varðar árstíðir, veðurfar og annað slíkt. Það er það sem kemur til móts við öryggissjónarmið og felur ekki í sér þær hættur sem núverandi fyrirkomulag að hluta til hefur gert í þeim efnum þar sem menn sitja uppi með mjög fáa veiðidaga og eru þar af leiðandi undir mikilli pressu að nýta þá til fulls hvernig sem viðrar ef menn hafa farið á sjó á annað borð o.s.frv.

Ég ætla ekki að taka tíma í þetta að öðru leyti, herra forseti, en ég leyfi mér að láta þetta sjónarmið koma hér fram í tengslum við frv. hæstv. ráðherra um að fresta gildistöku kvótasetningar þessa hluta smábátaflotans um eitt ár, sem ég tel vera skynsamlega ráðstöfun. Reyndar held ég að menn ættu líka, herra forseti, að velta því aðeins fyrir sér út í hvers konar reikningsskap er komið þegar t.d. á að fara kvótasetja veiðar þessara smáu skipa undir 6 tonnum á tegundum eins og ufsa og steinbít. Trúir því virkilega einhver maður að viðgangi þessara stofna sé stefnt í hættu á einn eða neinn hátt með þeim afar takmörkuðu veiðum sem líklegt er að þessi skip með veiðarfærum sínum séu að taka úr slíkum stofnum? Ég held ekki. Og þar af leiðandi held ég að þetta sé, svo dæmi sé tekið, til marks um þá ofstjórn eða þær ógöngur sem menn hafa í rauninni lent út í hvað varðar þessi mál, þ.e. fiskveiðistjórnina gagnvart smáu fiskiskipunum, og þetta sé til marks um það að þetta kerfi var auðvitað farið að lifa af sjálfu sér og þjóna sjálfu sér miklu fremur en einhverjum skynsamlegum, brýnum eða óumflýjanlegum aðgerðum sem nauðsynlegar voru vegna fiskveiðistjórnar og til að tryggja að ekki væri gengið úr hófi fram í fiskstofnana.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.