Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:57:45 (5466)

2000-03-20 15:57:45# 125. lþ. 82.10 fundur 460. mál: #A stjórn fiskveiða# (gildistími ákvæða um veiðar smábáta) frv. 93/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hér hefur þegar komið fram, þ.e. að út af fyrir sig er skiljanlegt að þeim ákvæðum sem eru í þessum lögum verði frestað vegna þess að ef eitthvað er að marka að menn vilji endurskoða lögin um stjórn fiskveiða er kannski ekki ástæða til að einmitt þau ákvæði sem hér er um að ræða gangi til gildis í haust. Ég get þó ekki annað sagt en að þetta mál hefði ég aldrei getað stutt eins og það liggur fyrir. Og það er satt að segja með miklum ólíkindum að stjórnarliðar og þeir sem studdu þetta frv. á síðasta þingi skuli hafa fundið leið til þess að gera það, því að þeir túlkuðu niðurstöðu Hæstaréttar á þann veg að það væri í raun og veru brot á stjórnarskránni að búa til kerfi eins og þetta sem hér er á ferðinni en settu síðan inn ákvæði um trillurnar á sama grundvelli og þeir sögðu að Hæstiréttur hefði dæmt af hvað varðaði stóru bátana. Ég kalla þetta ekki mjög góð vinnubrögð á hv. Alþingi að vinna á þennan hátt og þess vegna mun ég auðvitað ekki geta stutt þetta mál þó að málið standi um það að fresta gildistöku þeirra laga sem hér er um að ræða. Ég skil svo sem vel að menn vilji fresta því og það er ekki óskynsamlegt að skoða það.

[16:00]

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann líti svo á þeir sem hafa tekið ákvarðanir á grundvelli þessara laga --- og þeir eru ábyggilega þó nokkrir --- t.d. um að smíða sér skip með það fyrir augum að fá þau í hendur og nýta þau í haust þegar þessi lagaákvæði áttu að taka gildi, og hafa tekið ákvarðanir um þó nokkuð miklar fjárfestingar, eigi að sitja uppi með þetta. Það er a.m.k. ekki að sjá í þessu frv. að neitt tillit sé tekið til þess. Ég geri ráð fyrir því að einhver mál muni koma upp í tengslum við þetta sem megi rekja til þess að menn hafi tekið ákvarðanir. Ég veit reyndar til þess að sumir hverjir hafa selt báta sína með veiðileyfum, látið smíða aðra og ætla sér að nota þetta nýja veiðileyfi í haust á þá. Þeir hafa sem sagt selt veiðileyfin og selt það þeim sem treystu ekki á það að lögin tækju gildi og keyptu af þeim veiðileyfin. Þarna eru örugglega vandræði einhverra.

Ég lýsi yfir stuðningi við eina hugsun í þessu frv. sem ég var reyndar ákaflega óánægður með og það er að í raun og veru er verið að leggja af smábátaflokkinn með lögunum eins og þau eru. Það tel ég vera hið mesta óráð, það var inni í frv. og mér skilst að það hafi farið út úr því á milli 2. og 3. umr. eitthvert ákvæði um að bátana mætti stækka eftir að lögin tækju gildi núna næsta haust en það ákvæði hefur verið tekið út vegna þess að ekki þurfti á því að halda því að þá gátu allir fengið veiðileyfi og krókaleyfi á hvað stóran bát sem væri. Þetta er hið mesta óráð að mínu viti því auðvitað þarf að vera hægt að taka ákvarðanir á grundvelli einhvers skipaflokks sem heitir smábáta- eða grunnslóðaveiðiflokkur. Mér finnst full ástæða til að ræða hvar þau mörk eigi að liggja; mér finnst ekki að þau eigi endilega að liggja á sex tonnum. Það getur vel verið að skynsamlegt sé að breyta þeim en þá eiga menn líka að breyta þeim mörkum og hækka þau upp í sjö, átta, níu eða tíu tonn eða hvað menn vilja hafa það og skoða hvað er skynsamlegast í því en hafa þau mörk fyrir hendi til að hægt sé að hafa önnur úrræði fyrir þennan flota. Þess vegna tel ég að það sé góð hugsun á bak við það að breyta út frá þeirri óráðsíu sem ég vil meina að hafi verið þarna í lögunum. Ég hvet til þess að menn velti því fyrir sér, hins vegar er erfitt að ræða þessi mál núna undir þeirri óvissu sem er uppi.

Satt að segja finnst mér að menn þyrftu að fara að huga að þessum málum út frá því að hér hafi myndast afstaða út frá nýjum grundvallarforsendum sem menn munu kannski sjá í dómi Hæstaréttar á næstunni, það er ekki svo langt í hann. Ef Vatneyrardómurinn verður staðfestur þurfa menn að taka þessi mál öll upp aftur og skoða. Það er svo sem ekki hægt að spá fyrir um það núna en ég vil óska eftir því að hæstv. ráðherra svari því hvaða skoðun hann hefur á þeim vanda sem menn hafa lent í núna sem hafa tekið ákvarðanir á grundvelli þeirra laga sem liggja fyrir og eru núna að lenda í því að verða fyrir tjónum vegna þess, ef þessi breyting verður gerð á lögunum.