Grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 18:56:43 (5502)

2000-03-20 18:56:43# 125. lþ. 82.12 fundur 338. mál: #A grundvöllur nýrrar fiskveiðistjórnar# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[18:56]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að það er eðlilegt að ætlast til ábyrgðar af þeim sem fá að nýta sameiginlega auðlind og ég er líka sammála hv. þm. um að það er óeðlilegt að opna á það að menn geti leigt til sín veiðiheimildir umfram það sem þeir ætla sér að veiða. Við hljótum auðvitað að horfa til þess að menn séu þarna að afla sér veiðiréttar fyrst og fremst.

Hins vegar vitum við bæði, ég og hv. þm., að ýmislegt getur komið upp á sem gerir það að verkum að menn geta ekki nýtt sér þann rétt sem þeir eru búnir að leigja til sín. Og spurningin er þá þessi: Hvernig bregðumst við við slíku?

Ég hef horft til þeirrar hugmyndar að menn gætu skilað inn, en ég geri mér jafnframt grein fyrir því að það verður alltaf það mikil eftirsókn eftir veiðirétti á Íslandsmiðum að hann verður alltaf verðmæti í sjálfu sér. Spurningin er þá þessi: Hvernig er hægt að fá menn til að skila inn slíkum dýrmætum rétti? Eða verða menn að horfast í augu við það að til þess að hér megi verða sú hagræðing sem hlýtur að verða af því að ef einn ekki getur nýtt sér, og við skulum segja að það sé af óviðráðanlegum aðstæðum, þá fái annar að gera það? Hvaða aðferðum getum við þá beitt til þess að gera kerfið það lipurt að slíkt gangi upp?

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að við eigum hér heiðarleg skoðanaskipti um þessa hluti vegna þess að þetta skiptir virkilega máli þegar við erum að þróa nýjar hugmyndir um hvað eigi að taka við af því kerfi sem nú er við lýði.