Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:35:18 (5551)

2000-03-21 19:35:18# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki þannig, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ávallt sé hægt að velja út úr slíku samstarfi það sem okkur hentar best og sleppa hinu. Við getum út af fyrir sig staðið í ræðustól á Alþingi daginn út og daginn inn og reynt að semja við sjálfa okkur um þetta mál og önnur mál. Það er bara ekki þannig. Þegar ég er að lýsa því hvaða kostir hafi verið þarna í boði, þá er það mitt mat og það verður þá að standa sem mitt mat að það hafi annaðhvort verið að vera með í þessu eða standa utan við það. Þegar hv. þm. er að þýða ,,positiv medvirkning`` liggur alveg ljóst fyrir að þar er verið að tala um jákvæða þátttöku og það lá alveg ljóst fyrir alla tíð vegna þeirrar yfirlýsingar sem hann vitnaði í og við höfum oft tekist á um að menn voru fyrst og fremst að tala um það að ná niðurstöðu sem Norðurlöndin öll gætu sætt sig við. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir og ég hélt að það væri hv. þingmönnum alveg ljóst að þegar Finnland og Svíþjóð gengu í Evrópusambandið, þá voru þau að ganga í Evrópusambandið og Danmörk var þar fyrir. Þeir vildu hins vegar láta reyna til hins ýtrasta að fá niðurstöðu sem væri ásættanleg fyrir Noreg og Ísland. Þannig var málið unnið og slík niðurstaða fékkst. Það má tala við hvern sem er um það og ég hvet hv. þm. t.d. að spyrja forsætisráðherra Danmerkur um það vegna þess að hann vitnaði til þessa máls á dönsku hvort það væri ekki alveg ljóst því að hann þekkir afar vel til þess næst þegar hann hittir hann í Norðurlandasamvinnunni. Þannig er þetta og þetta er mat mitt og það verður þá að standa þannig og ég tel mig hafa orðið nokkra þekkingu á þessu samningaferli.