Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:49:39 (5593)

2000-03-21 22:49:39# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:49]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Nú er komið að lokum umræðunnar. Ég vil fyrir hönd formanns utanrmn., sem gat ekki verið við umræðuna síðari hluta dagsins, þakka fyrir hana. Þetta hefur verið málefnaleg umræða. Hér telja menn sig hafa unnið stóra sigra, m.a. 13. þm. Reykv., sem taldi að stórir sigrar hefðu unnist fyrir þingflokk hans í þessari umræðu. Hann minnti mig á persónu í gömlu leikriti sem sagði: Sjáið þið hvernig ég tók hann, piltar! Ég hef ekkert á móti því að hv. 13. þm. Reykv. gangi glaður til sængur í kvöld og ætla ekki að fara að munnhöggvast við hann um það hver hafi verið í vörn hér eða ekki.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. er dálítið klókur. Hann gerði sitt ýtrasta til að finna hér snertipunkta við Sjálfstfl. og það eru pólitísk klókindi af honum og ég vona að hann sofi vel með ástarjátningar sínar til forsrh. Ég ætla ekki að taka upp neina afbrýðisemi þess vegna þó að ég sé í samstarfi við hann.

En það mál sem um er að ræða, er í stuttu máli að verið er að greiða fyrir frjálsri för fólks á Schengen-svæðinu. Hér er verið að taka upp aukna lögreglusamvinnu við Evrópuríki. Við höfum talið það okkur í hag að standa ekki utan við þá auknu samvinnu. Rætt hefur verið um fjárhagshlið þessa máls og kannski var sú fullyrðing sem heyrðist hér áðan að þetta þýddi álögur á ferðaþjónustuna sem rak mig upp í þessi lokaorð. Hvergi hefur komið fram í skjölum málsins að það væru lagðar neinar álögur á ferðaþjónustuna í þessu sambandi.

Hitt hefur komið fram og varað hefur verið við því í umsögn Ferðamálaráðs sem ég stend að og er einn af þeim sem samþykktu þá umsögn, að auknum kostnaði vegna aðildar okkar að Schengen verði ekki velt út til flugfarþega eða fyrirtækja í flugrekstri. Það er eingöngu varað við þessu.

En í umsögn Flugleiða kemur fram að utanrrh. hefur árið 1996 skrifað svohljóðandi bréf þar sem segir m.a:

,,Ríkissjóður mun greiða stofnkostnað og rekstrarkostnað er leiðir af Schengen-samstarfinu. Hvernig fjármögnun verður háttað er ekki unnt að svara á þessu stigi, en engar fyrirætlanir eru um að leggja á viðbótargjald vegna Schengen-samkomulagsins.``

Þetta er í umsögn Flugleiða sem fylgir áliti frá 1. minni hluta utanrmn. Að sjálfsögðu liggja fyrir fjölmargar umsagnir um málið en ekki hafa verið ákveðnar neinar álögur á ferðaþjónustuna í þessu sambandi.

Mikið hefur verið gert úr fjárfestingum í Leifsstöð varðandi Schengen-samkomulagið og vegna stækkunar flugstöðvarinnar. En það hefur þá jafnframt komið fram að það er ekki nema lítill hluti af þessari fjárfestingu vegna Schengen því að sem betur fer hefur þróunin verið þannig að umferð ferðamanna til landsins í gegnum Leifsstöð hefur stóraukist. Við erum í þeim sporum að þurfa að stækka flugstöðina og getum þá um leið skipulagt stækkunina með tilliti til þess að hægt sé að taka á móti farþegum utan Schengen-svæðisins og innan Schengen. Það stendur þannig á spori hjá okkur að mestur hluti þessara fjárfestinga var nauðsynlegur vegna umferðar til landsins.

Satt að segja vona ég að sú endurskipulagning sem er nauðsynleg á tollgæslu og löggæslu og aðkomu til landsins vegna þessa máls verði ferðaþjónustunni til góðs og landsmönnum til góðs almennt. Hún sé viðskiptatækifæri fyrir ferðaþjónustuna og hún leiði til þess, ef vel er á haldið, að umferð ferðamanna til landsins aukist því að ekki má gleyma, og það kemur einnig fram í umsögn Ferðamálaráðs, að kosturinn við þetta er að hér er verið á stærstu mörkuðum erlendra ferðamanna hingað til landsins að greiða fyrir frjálsri för þeirra hingað. Ekki má vanmeta það heldur.

Ég held að ástæðulaust sé að mála þetta svo dökkum litum sem gert hefur verið af sumum hv. ræðumönnum en ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þm. um hver hafi sigrað eða tapað í umræðunni og vona að menn gangi bara glaðir til sængur í þeirri trú að þeir hafi sigrað.