Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:51:56 (5610)

2000-03-21 23:51:56# 125. lþ. 83.6 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom til 1. umr. lýsti ég andstöðu við það á tveimur forsendum, í fyrsta lagi sem hluta af Schengen-samkomulaginu sem ég er andvígur, og í öðru lagi gerði ég athugasemdir við einstakar greinar, og sérstaklega 10. gr. sem lýtur að landamæraeftirliti. Hvað þá gagnrýni snertir vil ég geta þess að í umfjöllun nefndarinnar var komið til móts við þau sjónarmið sem ég og fleiri settum fram og ég tel þá breytingu til bóta sem gerð hefur verið á 10. gr. og formaður allshn., hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, gerði grein fyrir hér áðan. Ástæðan fyrir því að í nál. kemur fram að ég er andvígur þessu frv. á rót að rekja til þess að ég er andvígur heildarpakkanum sem slíkum eins og hér hefur komið fram í umræðunni í dag.