Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 14:00:07 (5717)

2000-03-23 14:00:07# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur greinilega komið seint inn í ræðu mína. Ég er hvorki með þessu máli né á móti því, við skulum bara hafa það alveg á hreinu. Ég mun taka afstöðu til þess þegar fyrir liggja svör við þeim fjöldamörgu spurningum sem ég hef hér varpað fram. Þau hafa alls ekki komið í ljós. Ég áskil mér því allan rétt í þessum efnum.

Af því að hv. þm. lýsti yfir áhyggjum sínum af framtíð starfsmannamála, sem kann auðvitað að tengjast breytingum á kjördæmaskipan en ég skal ekkert um það segja, má náttúrlega spyrja: Hefur hann raunverulega áhyggjur af málinu og ætlar hann að fylgja því eftir? Mun afstaða hans til málsins byggjast á því hvort hagur starfsmanna verði tryggður? Verður hann kannski á móti málinu ef hagur þeirra verður ekki tryggður? Þannig má gagnspyrja.

Hlutafélagavæðing --- ég verð nú að leiðrétta hv. þm., við erum að tala um hlutafélagavæðingu en ekki hlutafjárvæðingu --- er auðvitað til að skapa ráðherranum pólitíska fjarlægð. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að ný stjórn í Leifsstöð verði með öðrum formerkjum en til að mynda í Íbúðalánasjóði eða þeim stjórnum og ráðum sem ráðherrarnir hafa skipað. Þarna eiga sérfræðingar í skóverslunum greinilega að ráða ferðinni.

En það væri líka fróðlegt að heyra hvort hv. þm., sem kemur úr stjórnarliðinu, líti þannig á að pólitískt jafnvægi eigi að ríkja í þessari stjórn, eins og menn þekkja raunar enn að hluta til í Landssímanum og Íslandspósti þar sem hann situr. Finnst honum það sjálfsagt og eðlilegt að þar verði ákveðið pólitískt jafnvægi þannig að eftirlitsskylda annarra flokka sé tryggð með þessari mikilvægu starfsemi? Er hann mér sammála um það? Ég held að það sé sniðugt en jafnframt að tryggja nauðsynlega sérhæfingu og sérþekkingu á rekstri skóverslana.