Sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 15:08:50 (5737)

2000-03-23 15:08:50# 125. lþ. 86.94 fundur 408#B sparnaður í lyfjakostnaði hins opinbera# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það er ekki að undra að þessi fyrirspurn komi fram um lyfjamálin vegna þess að þess er skemmst að minnast að öll áform um að draga úr lyfjakostnaði á síðasta ári mistókust herfilega.

Í staðinn fyrir 300 millj. kr. sparnað var raunaukningin 300 millj. kr. Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2000 í þeirri nefnd sem undirbjó það að reyna að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum var lagt fyrir minnisblað frá heilbrrn. frá 8. júlí um að ganga inn í svokallað sænskt/danskt kerfi. Áætlað var að það gæti staðið fyrir mjög verulegri lækkun á lyfjakostnaði. Niðurstöður okkar á tillögu til ríkisstjórnarinnar voru þær að þetta kerfi skyldi taka gildi 1. júlí árið 2000 og við ætluðum að með því gætum við sparað 400 millj. kr.

Í meðferð fjárlagafrv. varð það hins vegar niðurstaðan að heilbrrn. treysti sér til að hefja þessa aðgerð fyrr, helst 1. janúar, í síðasta lagi 1. mars og var þannig gengið út frá því að heildarsparnaðurinn gæti orðið 1000 millj. kr. Nú kann það að vera að þetta muni dragast eitthvað og þá horfir mjög í verra vegna þess að það fer ekkert milli mála að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar gæti hæglega leitt til þess að þetta hagkerfi ofhitnaði og því er það skylda stjórnvalda að standa við áform fjárlaga um ríkisútgjöld hvað sem það kostar. Það hefur ekki farið fram hjá neinum og enginn skyldi ætla annað en verði hnökrar á því að draga úr kostnaði við lyf, þá komumst við ekki hjá því að ná því markmiði einhvern veginn öðruvísi, þ.e. að auka verði þá hlutdeild sjúklinga á annan hátt til að markmiðið um 1000 millj. náist.