Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:25:06 (5768)

2000-03-23 17:25:06# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil minnast á örfá atriði í tilefni þessara orða hæstv. utanrrh.

Við skulum vinna málin vel, það á að vera markmiðið. Hæstv. ráðherra segir nauðsynlegt að ná utan um fjármálin. Gagnrýnin beinist einmitt að því að menn glati tökunum á fjármálunum með því að gefa þessa gullgerðarvél sem flugstöðin er frá sér, þ.e. frá þjóðinni.

Þrjú önnur atriði vildi nefna. Fyrst ætlaði ég að spyrja: Hvað er það að mati hæstv. utanrrh. sem kemur í veg fyrir að viðskiptastarfsemi, þess vegna á vegum einkaaðila, sé rekin í Leifsstöð, án þess að gera flugstöðina í heild sinni að hlutafélagi og hugsanlega með það fyrir augum að selja hana?

Í öðru lagi segir hæstv. ráðherra og formaður Framsfl. að sá flokkur hafi aldrei verið talsmaður ríkisreksturs. Það kann vel að vera en sú var tíðin að hann lagði áherslu á samfélagsrekstur, félagslegan rekstur og félagsleg sjónarmið. Um það snýst þetta mál að hluta til, hvert eigi að beina hagnaðnum af þessari gullgerðarvél. Á að beina honum inn til samfélagsins eða til einkaaðila?

Í þriðja lagi segir hæstv. ráðherra að því fari fjarri að Framsfl. sé að vinna skítverkin fyrir Sjálfstfl., vinna verk sem Framsfl. sé á móti skapi. Ég sagði það aldrei. Ég sagði reyndar hið gagnstæða, að þetta væri Framsfl. að skapi og sérstaklega hæstv. utanrrh. því að þetta færði völdin yfir Leifsstöð til hans.

Ég sagði hins vegar að á milli Framsfl. og Sjálfstfl. væri orðinn illgreinanlegur munur. Framsfl. væri sem deild í Sjálfstfl. og þar færu sjónarmiðin algjörlega saman í þessu máli eins og öðrum sem lúta að einkavæðingu eða því að greiða fyrir fjármagninu í samfélaginu.