Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:36:21 (5775)

2000-03-23 17:36:21# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég vildi árétta eru spurningar mínar, í fyrsta lagi varðandi flugvöll og flughöfn. Fyrir mér eru flugvöllur og flughöfn mjög nátengd fyrirbæri og hluti af sömu ábyrgð og þjónustu. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh.: Er það algengt í nágrannalöndunum að forsjá sé á sinni hvorri hendinni varðandi flugvöll og flughöfn? Hefur það verið rækilega kannað hvaða áhættu menn eru þarna að taka? Ég er ekki að hvetja til þess að flugvöllurinn sé hlutafélagavæddur eða einkavæddur en þetta er samt stórmál í sjálfu sér og mikil ábyrgð.

Í öðru lagi er hlutafélagavæðing í þessu formi til ætluð að selja megi fyrirtækið. Þó að menn séu hér að tala um rekstrarform þá er ætlunin líka að búa þetta undir sölu. Þá spyr ég: Hvernig verður því fjármagni varið sem ætlað er á næstu árum til uppbyggingar á Leifsstöð? Menn eru að tala um marga milljarða kr. á næsta áratug. Hver mun eiga það fé og hver mun axla ábyrgðina á notkun þess? Hvernig verður því háttað?