Skipulag ferðamála

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 14:30:06 (5866)

2000-04-04 14:30:06# 125. lþ. 89.7 fundur 366. mál: #A skipulag ferðamála# (menntun leiðsögumanna) frv. 20/2000, PBj
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna þessu frv. og ég tel að breytingarnar séu mjög til bóta. Án þess þó að halda því fram að illa hafi verið sinnt um þetta undir verndarvæng samgrn. þá hefur samt sem áður komið í ljós að það er ólipurt í framkvæmd. Fyrir nokkrum árum kom t.d. í ljós þegar efnt var til menntunar svæðisleiðsögumanna að heldur óþjálla var að sækja hana undir samgrn. og tengja hana síðan stofnunum menntmrn. Þessi breyting er því á allan hátt mjög eðlilegur hlutur. Ég vil taka undir flest það sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði um leiðsögumenn, menntun þeirra og metnað.

Það er nú svo að þessi atvinnugrein, ferðaþjónusta, hefur eflst geysimikið á undanförnum áratug, meira en marga áratugi þar á undan. Leiðsögumenn hafa á margan hátt átt undir högg að sækja og eins og kom fram áðan eru dæmi um að erlendir leiðsögumenn ferðist með hópum um landið. Sömuleiðis eru það áhugahópar um ferðamál, og þeir margir mjög stórir, sem sinna ekki menntun leiðsögumanna sinna eins og vert væri. Þeir eru margir með afburðafæra menn í þekkingu á landi og leiðum en það er fleira sem einkennir góðan leiðsögumann en þekkingin ein. Leiðsögumenn þurfa að ganga í gegnum mjög strangan skóla þar sem farið er yfir starf þeirra á mjög fjölbreytilegan hátt og margt fleira tekið en þekking á landinu vegna þess að leiðsögumaður er jafnframt stjórnandi og að vissu leyti ábyrgðarmaður hópsins. Hann þarf því að hafa margt fleira til brunns að bera en þekkingu á landinu. Hann þarf að þekkja inn á skipulag þess sem verið er að fara og fólkið sem hann er að fara með.

Ég held að með menntun leiðsögumanna, sem hefur átt undir högg að sækja eins og ég gat um áðan, hafi tekist mjög vel til að halda námskröfum bæði vel skilgreindum og nokkuð stífum. Ég held að ekki sé á nokkurn mann hallað þó að nefnd sé Birna G. Bjarnleifsdóttir sem hefur verið forsvarsmaður og umsjónarmaður þessa náms frá upphafi og haft handleiðslu allan tímann sem það hefur staðið yfir, en það hefur þróast á hinn ákjósanlegasta veg, m.a. í tengslum við Menntaskólann í Kópavogi og ýmsa aðra.

Sú breyting sem komin er fram er vafalaust til bóta en ég tek undir þær athugasemdir sem hafa verið gerðar við niðurlag greinargerðarinnar. Það er mjög sérkennilegt ef starfsmenntun leiðsögumanna falli undir nýleg lög um framhaldsskóla þar sem stúdentspróf er gert að inntökuskilyrði. Þetta er liður sem ég treysti að verði tekinn til skoðunar og þessu námi verði fundinn farvegur sem því hæfir.