Almannatryggingar

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 15:42:15 (5883)

2000-04-04 15:42:15# 125. lþ. 89.12 fundur 503. mál: #A almannatryggingar# (dvalarkostnaður foreldris) frv. 61/2000, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar umræður um það frv. sem hér liggur fyrir. Í stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna er tekið á mjög mörgum hlutum. Tekið er á menntamálunum, félagsmálunum og heilbrigðismálunum. Til viðbótar því sem þegar er búið að gera er gert ráð fyrir tveim nefndum sem taka nú þegar til starfa. Og einmitt vegna þess máls sem hér var rætt um varðandi orlof foreldra sem eiga langveik börn er gert ráð fyrir að vinnuhópur fari þegar að starfa að undirbúningi þess að lengja þann tíma en fulltrúar vinnumarkaðarins verða að koma að því máli. Önnur nefnd mun líka þegar hefja störf og á hún að fylgjast með því að allt gangi upp sem segir í þessari stefnumótun sem er mjög víðtæk.

En vissulega er mjög margt að gerast einmitt um þessar mundir hvað varðar fjölskyldumálin. Í morgun var fæðingarorlofið kynnt sem er afskaplega mikil réttarbót fyrir foreldra og mikið jafnréttismál, og ég veit að það mun breyta miklu fyrir fjölskylduna. Það er mjög ánægjulegt að við skulum ná jafnvíðtækri sátt um það mál og raun ber vitni. Þar er líka tekið á ýmsum málum er varða börn sem fæðast sjúk, tekið er á málum sjúkra mæðra, bæði fyrir og eftir fæðingu. Það er því æðimargt að gerast um þessar mundir sem er til bóta hvað varðar sjúk börn á Íslandi.