Heimsóknir útlendinga

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 13:58:48 (5921)

2000-04-05 13:58:48# 125. lþ. 91.2 fundur 508. mál: #A heimsóknir útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Fyrir um tveimur vikum spurði ég um mjög sérstakar reglur sem gilda um dvalarleyfi fyrir útlendinga sem vilja koma hingað í heimsókn til ættingja sinna eða tengdafólks. Í kjölfarið kom í ljós að fólk hefur fengið mjög misvísandi upplýsingar um skilyrði fyrir dvalarleyfi. Ég lenti meira að segja í því sjálf og ég fékk ekki reglurnar, sem unnið er eftir, fyrr en fjórum dögum eftir að ég bað um þær fyrst.

Í kjölfar þessarar fyrirspurnar fékk ég ótrúleg viðbrögð frá fólki sem sagði farir sínar ekki sléttar í þessum efnum. Reglurnar sem gilda eru mjög mismunandi eftir tengslum og skyldleika gestsins við gestgjafann. Almennt þurfa þeir sem sækja um dvalarleyfi að leggja fram rúmlega 60 þúsund kr. tryggingu fyrir hvern mánuð sem gesturinn hyggst dvelja hér og 108 þúsund fyrir hjón og þetta þarf að leggja inn á bankareikning fyrir fram. Eins og segir í vinnureglum Útlendingaeftirlitsins getur staðfesting verið í formi peninga, bankayfirlita, tékka eða yfirlita frá sjóðum. Þetta á þó ekki við um foreldra og tengdafólk íslenskra ríkisborgara eða útlendinga með dvalarleyfi en börn þeirra sem eru að bjóða foreldri eða foreldrum þurfa að sýna fram á að geta framfleytt þeim með launaseðlum síðustu þriggja mánaða eða með framlagningu skattskýrslu. Ég velti fyrir mér hvaða heimild er fyrir svona kröfum. Ég ætla að nefna dæmi um sambýliskonu, ég var að nefna foreldra, tengdafólk og börn.

[14:00]

Íslendingur sem starfaði í Namibíu við þróunarverkefni okkar þar var að koma heim og ætlaði að bjóða með sér þarlendri sambýliskonu sinni sem hann hefur búið með þar sl. 10 mánuði. Þau ætluðu að sjá til hvernig henni líkaði hér áður en þau ákvæðu um framhaldið á sambandi þeirra. Hann hefur gengið á hvern vegginn af öðrum við að fá dvalarleyfi fyrir hana og m.a. kom krafa um háa innlögn á bankareikning í hennar nafni á kennitölu sem hún er auðvitað ekki með. Þegar hann var alveg að gefast upp á öllum barningnum var honum bent á að hann skyldi bara giftast henni því að þá mundi hann losna við allt vesenið. Hvaða Íslendingar eiga inni á bankabók fyrir sinni eigin framfærslu í marga mánuði eða jafnvel ár fram í tímann? Þetta er niðurlægjandi krafa um framvísun launaseðla, skattframtals eða hundruð þúsunda innlagnir á bankareikninga. Það er verið að mismuna fólki þarna eftir því hvort það er ríkt eða fátækt í því að fá sína nánustu hingað sem gesti. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh.:

Hvaða rök eru fyrir því að Íslendingar sem vilja bjóða erlendum ættingjum og tengdafólki til dvalar þurfi að hlíta mismunandi reglum til að fá dvalarleyfi fyrir þá?

Hyggst ráðherra afnema skilyrði sem eru fyrir heimsóknum útlendinga utan EES-svæðisins? Þar á ég við peningatryggingar, framvísanir launamiða, skattskýrslu og bankainnstæðu, sem er niðurlægjandi eins og ég sagði áðan fyrir þá sem eru að bjóða hingað til sín ættingjum. Um vegabréfs\-áritanir gegnir öðru máli og gilda um það aðrir samningar.