Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 05. apríl 2000, kl. 18:58:56 (5981)

2000-04-05 18:58:56# 125. lþ. 93.1 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (lækkun gjalda) frv. 8/2000, Frsm. meiri hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 125. lþ.

[18:58]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 938 sem frsm. meiri hluta efh.- og viðskn.

Brtt. gengur út á það að í frv. er gert ráð fyrir því að gildistaka frv. eigi sér stað nú þegar að undanskildu ákvæði sem varðar bílaleigubíla. Það átti að taka gildi 15. maí vegna þess að það þarf að setja reglugerðir og það á eftir að samþykkja lög um bílaleigur. Það var talið nauðsynlegt að hafa þennan tíma til þess að setja þær reglugerðir og kynna málið.

Nú hins vegar háttar þannig til að aðaltími ferðaþjónustu fer í hönd og það er mjög mikilvægt að bílaleigur geti keypt inn bíla nú þegar. Það er of seint fyrir þær að gera það 15. maí og þetta mundi stöðva allan innflutning því að menn borga að sjálfsögðu ekki 30 eða 45% vörugjald ef þeir geta gert það með 10% 15. maí.

Þess vegna er lagt til eftirfarandi:

,,Endurgreiða skal mismun greidds vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum ... og tollafgreiddar eru eftir gildistöku þeirra og þess vörugjalds sem borið hefði að greiða ef bifreið hefði verið tollafgreidd eftir 15. maí 2000. Endurgreiðsla skal háð því að skilyrðum d-liðar 3. gr. laga þessara til lækkunar vörugjalds sé fullnægt.``

Það er sem sagt lagt til að menn geti flutt inn bifreiðarnar, þeir borgi þá fullt vörugjald ef lögin verða samþykkt, 30 eða 45%, og síðan fái þeir endurgreiddan mismuninn á því gjaldi og 10% vörugjaldi sem hefði átt að greiða.

Herra forseti. Ég mæli enn fremur fyrir brtt. á þskj. 939 sem framsögumaður meiri hluta efh.- og viðskn. og í samræmi við samkomulag hæstv. fjmrh. og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, meðflutningsmanns míns. Þessi brtt. gengur út á það að í stað þess að ,,bifreiðar fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á þeim, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins``, lækki niður í vörugjaldsflokk 10%, þá verði vörugjaldið ekkert. Það verði sem sagt ekkert vörugjald af þeim bifreiðum og þær verði fluttar yfir í þann flokk bifreiða sem ekki greiði vörugjald, sem er í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. laganna.

Rökstuðningurinn á bak við þetta er sá að hér er um að ræða mjög dýrar og sérhannaðar bifreiðar. Þær eru yfirleitt nokkuð stórar og þær þurfa mjög dýran aukabúnað, hjólastólalyftu, sem er það dýr að ekki er talið eðlilegt að greitt sé af slíkum bifreiðum vörugjald.