Norræna ráðherranefndin 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 10:46:27 (5984)

2000-04-06 10:46:27# 125. lþ. 94.1 fundur 470. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1999# skýrsl, 422. mál: #A norrænt samstarf 1999# skýrsl, ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Frsm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Fyrir fundinum liggur skýrsla Norðurlandaráðs fyrir árið 1999 á þskj. 687 og er þetta 422. mál þingsins. Ég mun sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs gera stuttlega grein fyrir innihaldi hennar. Sú upptalning verður þó hvergi tæmandi, þar sem annars vegar er fjallað um störf Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og hins vegar er stuttlega farið yfir störf Norðurlandaráðs og fagnefnda ráðsins.

Eins og flestir þingmenn vita voru gerðar skipulagsbreytingar á Norðurlandaráði á þingi þess í Reykjavík árið 1995. Starfseminni var skipt upp í þrjú meginsvið, þ.e. Norðurlandanefnd, sem sér um samvinnu innan Norðurlanda, Evrópunefnd, en meginstarfsemi þeirrar nefndar er fólgin í samvinnu Norðurlandanna og Evrópu í sambandi við ESB- og EES-samninga, og nærsvæðanefnd, sem fjallar um samvinnu Norðurlanda við nærsvæði þeirra. Forsætisnefnd var stækkuð og hefur yfirumsjón og eftirlit með starfsemi og rekstri Norðurlandaráðs. Ég mun síðar í ræðu minni víkja nánar að starfsemi þessara nefnda.

Flokkastarf var aukið og forustuhlutverk Norðurlandaráðs eflt. Flokkastarfið skiptist í fjóra meginflokka, þ.e. sósíaldemókratíska hópinn eða jafnaðarmannahópinn, en í þeim hópi situr Samfylkingin, miðjuhópinn þar sem framsóknarmenn sitja, hægri hópinn þar sem sjálfstæðismenn sitja og vinstri sósíalista þar sem vinstri grænir sitja.

Eitt árlegt Norðurlandaþing er haldið að hausti í stað tveggja áður. Embættisár forseta er eitt ár, þ.e. almanaksárið. Þemaráðstefnur eru haldnar sem fjalla um málefni er snerta norræna samvinnu og þau mál sem eru efst á baugi hverju sinni.

Sífelldar umræður eru um það hvort hið nýja skipulag virki á réttan hátt. Á stundum er rætt um að hverfa aftur til fyrra skipulags. Þó hygg ég að fleiri aðhyllist hið nýja skipulag sem virðist skilvirkara en eldra fyrirkomulag. Einnig er rætt um hvort færa eigi Norðurlandaráðsþing og halda það fyrri hluta árs, t.d. í mars, þar sem fjárlaganefndarmenn þjóðþinganna eru oft á tíðum önnum kafnir við fjárlagagerð að haustinu, en enn hefur ekki verið ákveðið neitt í þessum efnum.

Sett hefur verið á fót sérstök nefnd vísra manna eða ,,vismandspanelet``, sem oft er nefnd aldamótanefndin á íslensku, undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra Norræna fjárfestingarbankans, en hann er einnig fyrrverandi samstarfsráðherra Norðurlandaráðs. Gert er ráð fyrir að nefndin skili af sér 1. september nk. og niðurstöður þeirrar nefndar verða til umfjöllunar á 52. Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík 6.--8. nóvember nk.

Árið 1999 fór Svíinn Gun Hellsvik með forsetaembætti Norðurlandaráðs, en um síðustu áramót tók Sigríður Anna Þórðardóttir við embættinu. Bindum við Íslendingar miklar vonir við störf hennar og óskum við Sigríði Önnu Þórðardóttur gæfu og gengis í því ábyrgðarmikla starfi sem forsetastarf Norðurlandaráðs er.

Herra forseti. Næst ætla ég að víkja að starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman sex sinnum á árinu. Að venju voru fundir í Norðurlandaráði og ráðstefnur undirbúnar. Ítarlega var rætt um skipulagningu haustfunda Norðurlandaráðs en haustfundurinn var að þessu sinni haldinn á Akureyri 26.--29. september og tókst hann afar vel. Berglind Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, kom til fundar við nefndina og fjallaði m.a. um skipulagningu Barentsráðstefnunnar í Alta en Norðurlandaráð og norska Stórþingið stóðu fyrir þeirri ráðstefnu 7.--9. apríl sl. Rætt var um opnun sendiráðs Norðurlandanna í Berlín og forsætisnefndarfund í framhaldi af þeirri opnun. Siv Friðleifsdóttir samstarfsráðherra og Snjólaug Ólafsdóttir frá Norðurlandaskrifstofu forsrn. komu til fundar við nefndina. Þar var rætt um helstu mál norrænu ráðherranefndarinnar.

Norræna ráðherranefndin stóð straum af kostnaði þátttakenda frá Rússlandi og Eystrasaltsríkjum við ráðstefnuna Konur og lýðræði sem fór fram í Reykjavík 8.--10. október sl. en mjög góður rómur var gerður að þeirri ráðstefnu. Ákveðið hefur verið að framhaldsráðstefna verði haldin í Litháen síðar. Fram kom að íslenska ríkisstjórnin ætlar að standa fyrir ráðstefnu um norðlægu víddina í Brussel fljótlega.

Rætt var um verkefnið ,,Fólk og haf í norðri`` sem var meginverkefnið í formennskutíð Íslands en hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, fór með formennsku í ráðinu en síðar tók hæstv. umhvrh., Siv Friðleifsdóttir, við formennskunni.

Rætt var um Eystrasaltssamstarfið og samstarfið við Vestnorræna ráðið en Íslandsdeild vill efla það. Það er í rauninni skylda okkar Íslendinga að vera í sem bestu samstarfi við frændur okkar í Færeyjum og vini okkar á Grænlandi.

Á fundi Íslandsdeildar fyrir 51. Norðurlandsþing var þingið undirbúið af kostgæfni enda tóku allir sjö fulltrúar Íslandsdeildar þátt í opinberum umræðum á þinginu í Stokkhólmi.

Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar þann 26. maí, en samanlögð var styrkupphæðin 90 þús. danskar krónur. Eftirfarandi fréttamenn hlutu styrki: Benedikt Sigurðsson, Elín Þóra Friðfinnsdóttir, Elmar Gíslason, Friðrik Á. Brekkan, Sveinn Helgason, Hjálmar Blöndal og Þorvaldur Örn Kristinsson.

Oft er rætt um að efla þurfi tengsl fjölmiðla við hið víðtæka og umfangsmikla starf Norðurlandaráðs.

Í byrjun nóvember tók Einar Farestveit við starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs en Auðunn Atlason lét af störfum í september. Þá lét Kristín Ólafsdóttir, sem einnig hafði unnið fyrir Íslandsdeildina, af störfum í október. Auðuni og Kristínu er þakkað gott samstarf og Einar Farestveit er boðinn velkominn til starfa. Mjög nauðsynlegt er fyrir Íslandsdeild Norðurlandaráðs að hafa þrautþjálfað og gott starfsfólk vegna hins umfangsmikla starfs sem í ráðinu er.

Herra forseti. Næst vík ég að fastanefndum Norðurlandaráðs.

Í byrjun árs 1999 tók Gun Hellsvik frá Svíþjóð við embætti forseta Norðurlandaráðs af Berit Brörby Larsen frá Noregi. Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum flokkahópanna sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Landsdeildir allra Norðurlanda og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Hlutverk forsætisnefndar er að hafa yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs og á milli þinga, en hún hefur einnig með höndum erlend samskipti og utanríkis- og varnarmál, en þetta er í raun nýr þáttur í starfi Norðurlandaráðs frá skipulagsbreytingunni 1995. Forsætisnefnd fjallar einnig um fjárlög Norðurlandaráðs en sérstakur hópur fer ofan í fjárlög og fjárlagagerð. Fjallað er um tillögur sem beint er til forsætisnefndar.

Á starfsárinu hafa af Íslands hálfu setið í forsætisnefnd Valgerður Sverrisdóttir fyrir flokkahóp miðjumanna, Rannveig Guðmundsdóttir fyrir flokkahóp jafnaðarmanna og Sigríður Anna Þórðardóttir fyrir flokkahóp hægri manna. Þegar ný Íslandsdeild var kosin í júní sl. tók Ísólfur Gylfi Pálmason sæti Valgerðar Sverrisdóttur og Sighvatur Björgvinsson tók sæti Rannveigar Guðmundsdóttur.

Forsætisnefnd hélt níu fundi á árinu. Fjallað var um samning Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar um samvinnu á sviði upplýsingaþjónustu. Rætt var um fund í Riga samkvæmt tillögu lettneska þingsins í tilefni af 800 ára afmælis þess árið 2001. Undirbúið var 51. Norðurlandaráðsþing í Stokkhólmi og tillögur Knuts Enggards um útgáfu á afmælisriti í tilefni af 50 ára afmæli ráðsins.

Ráðinn var nýr framkvæmdastjóri í stað Berglindar Ásgeirsdóttur sem sagði embætti sínu lausu og Norðmaðurinn Frida Nokken var ráðin í embættið. Berglindi eru þökkuð mjög farsæl og góð störf bæði sem framkvæmdastjóri ráðsins og eins fyrir hjálp og velvilja í garð Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem berast til nefndarinnar hverju sinni. M.a. var fjallað um stöðu Sama á Norðurlandaráðsþingum, aukna samvinnu við Eystrasaltsríkin, rætt um breytingar á upplýsingaþjónustu Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Kynntar voru tillögur um breytingar á tímaritinu Politik i Norden og upplýsingar um ráðið á veraldarvefnum. Upplýsingafulltrúi Norðurlandaráðs er hinn kunni íslenski fjölmiðlafræðingur Sigrún Stefánsdóttir.

Herra forseti. Næst vík ég að starfi Norðurlandanefndar.

Norðurlandanefnd hélt sex fundi á árinu. Málefni nefndarinnar eru fyrst og fremst norræn samstarfsmálefni, menning, menntun, félagsmál, jafnréttismál og réttindamál. Vinnuhópur um börn og unglinga hélt vinnufund á Egilsstöðum í lok maí og niðurstöður vinnuhópsins voru birtar í tillögunni A1194/nord, sem samþykkt var á 51. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.

Á haustfundi á Akureyri í september var fjallað um líftækni og lífsiðfræði. Þar voru framsögumenn Kári Stefánsson forstjóri og Högni Óskarsson geðlæknir. Einnig var fjallað norræna vöruflutninga og fjarskipti þar sem hæstv. samgrh., Sturla Böðvarsson, var framsögumaður.

Fulltrúar Íslands í Norðurlandanefnd á starfsárinu voru Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Jóhannesdóttir en á 51. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi tók Arnbjörg Sveinsdóttir sæti í Evrópunefnd í stað Norðurlandanefndar.

Herra forseti. Næst vík ég að starfi nærsvæðanefndar. Nefndin hélt alls fimm fundi á árinu. Í starfsáætlun nefndarinnar var lögð áhersla á nánara samstarf við Eystrasaltslöndin og önnur nærsvæði Rússlands og heimskautasvæðanna. Umhverfismál skipa stóran sess í starfi nefndarinnar og sérstök áhersla er lögð á aðstæður barna og unglinga á þessum svæðum.

Nærsvæðanefnd fylgir eftir verkefninu BarnForum, og er ákveðið að halda verkefninu áfram. Nærsvæðanefnd tók þátt í Barentsráðstefnunni í Alta, ráðstefnu Evrópusambandsins hjá Eystrasaltsþinginu, fjölmiðlaráðstefnu í Vilnius, ráðstefnu um kjarnavopn, stefnu Eystrasaltsríkjanna sem haldin í Vilnius og áttu enn fremur fund með þingmannasambandi NV-Rússlands í Viborg.

Nú vík ég að starfsemi Evrópunefndarinnar. Hlutverk Evrópunefndarinnar er að sinna samstarfi Norðurlanda og EFTA/ESB-ríkja og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Nefndin hefur einkum fjallað um atvinnumál, hagstjórnarmál, neytendamál og meðferð evrópskrar löggjafar í ESB og EES á Norðurlöndunum auk þess að fjalla um starfsáætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Á fundum nefndarinnar var fjallað um efnahagsmál, mikið er fjallað um gjaldmiðla Norðurlandanna gagnvart EMU.

Starfandi er sérstakur vinnuhópur á vegum Evrópusambandsins um Norræna iðnaðarsjóðinn. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum fyrir 52. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík. Ráðstefna nefndarinnar um svæðisbundna samvinnu í ört stækkandi Evrópusambandi var haldin í samvinnu við norrænu ráðherranefndina og Benelux-löndin.

[11:00]

Nefndin hélt fund um ,,norðlægu víddina`` með Evrópu- og utanríkisnefnd þjóðþinga Norðurlanda. Fulltrúar Íslands í Evrópunefndinni voru Siv Friðleifsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Siv vék úr nefndinni þegar hún tók við embætti umhvrh. en Hjálmar Jónsson kom í nefndina í hennar stað sl. sumar.

Herra forseti. Næst vík ég að helstu verkefnum eftirlitsnefndar Norðurlandaráðs. Arnbjörg Sveinsdóttir tók sæti Sturlu Böðvarssonar þegar Sturla tók við embætti samgrh. sumarið 1999. Helstu verkefni Evrópunefndarinnar voru skoðun á ársreikningum norræna menningarsjóðsins, eftirlit með ályktunum Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar og skoðun á málefnum norræna menningarsjóðsins, styrktarúthlutunum með tilliti til einstakra landa.

Norðurlandaráð veitir þrenn verðlaun árlega og nema þau 350 þús. danskra króna. Þau eru bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun.

Bókmenntaverðlaunum hefur verið úthlutað frá árinu 1962. Markmið þeirra er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Danska skáldkonan Pia Tafdrup hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1999 fyrir bókina ,,Dronningeporten``.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1965. Leif Segerstam frá Finnlandi hlaut verðlaunin árið 1999.

Á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík árið 1995 var samþykkt að veita umhverfis- og náttúruverndarverðlaun. Verkefnið ,,Natur og Miljø`` frá Álandseyjum hlaut umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 1999, en verkefnið er unnið samkvæmt Staðardagskrá 21.

Helstu ráðstefnur á vegum Norðurlandaráðs voru Barentsráðstefna Norðurlandaráðs og norska Stórþingsins í Alta dagana 7.--9. apríl 1999, Málstofan Þýskaland og Norðurlöndin --- eiga þau samleið í nýrri Evrópu? í Berlín 21. október sl. og ráðstefna um líftækni og líffræði í tengslum við haustfund á Akureyri 26. og 29. september sl.

Stærsta stund í starfi Norðurlandanna á árinu var vafalítið þegar opnað var nýtt sameiginlegt sendiráð í Berlín. Opnun sendiráðanna er í raun táknræn fyrir samstöðu og eindrægni í Norðurlandasamstarfinu.

Herra forseti. Að lokum vil ég þakka samstarfsfólki í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir mikið og gott starf. Ég vil þakka samstarfsráðherrum og starfsmönnum öllum hjá alþjóðasviði Alþingis fyrir þeirra störf.