Vestnorræna ráðið 1999

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 14:07:26 (6011)

2000-04-06 14:07:26# 125. lþ. 94.3 fundur 388. mál: #A Vestnorræna ráðið 1999# skýrsl, 461. mál: #A ályktanir Vestnorræna ráðsins# þál. 15/125, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[14:07]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Til að byrja á því að taka upp þráðinn þar sem síðustu ræðumenn slepptu þá fór fram kynning á einhverjum þáttum þeirrar rannsóknar sem hv. þm. Ísólfur Gylfi var að spyrja um. Það sem ég man úr þeim þáttum var að íslensk ungmenni höfðu ekki nándar nærri eins mikinn áhuga á pólitík og færeysk. Færeysk ungmenni virtust hafa lítið álit á stjórnmálamönnum sínum og mikinn áhuga á stjórnmálum en það var alveg öfugt á Íslandi þar sem íslensk ungmenni virtust hafa þó nokkuð álit á stjórnmálamönnum sínum en lítinn áhuga á stjórnmálum.

Þetta má kannski rekja til þess hvernig staðan var í löndunum áður en þessi rannsókn var gerð, en mér fannst þetta alla vega mjög áhugaverð niðurstaða.

Herra forseti. Ég sný mér þá að efni þeirrar ályktunar og skýrslu sem hér eru til umfjöllunar. Það sem ég ætla fyrst og fremst að víkja að eru þær tillögur sem liggja fyrir í þáltill. Hv. flutningsmaður kom inn á að þau mál sem þar eru til umfjöllunar sem snúa fyrst og fremst að jafnrétti kynjanna eru ekki bara fyrir konur og munu ekki bara gagnast konum ef þau ná fram að ganga, heldur samfélaginu öllu. Það eru orð að sönnu. Það skiptir auðvitað verulegu máli fyrir samfélagið að allir fái notið hæfileika sinna og krafta en það skiptir líka máli að með börnum og ungmennum sé ræktuð gagnkvæm virðing fyrir kynjunum og það virðist sem svo að þar sem það er gert sé minni hætta á að menn hafi fordóma gagnvart öðrum hópum samfélagsins eða annarra samfélaga. Jafnréttisuppeldi virðist því vera leið til að minnka hættu á rasisma sem, eins og fram kom í máli manna í morgun þegar var verið að fjalla um Norðurlandaráð, er málefni sem þar er mjög á dagskrá.

Það er líka annað sem byggir undir það og styður að Vestnorræna ráðið taki málefni kvenna upp af myndarskap. Ljóst er að víða á strjálbýlum svæðum eru konur mun færri en karlar. Það virðist sem svo að þau lífsskilyrði sem fólki eru búin þar henti körlum að mörgu leyti betur. Að minnsta kosti virðist reynslan vera sú að konurnar fara, þær flytja sig um set þar sem aðstæður þeirra til að þroskast og taka þátt í atvinnulífi eru betri. Og ef við ætlum að halda lífvænlegri byggð á norðurslóðum er mjög mikilvægt að staða kvenna sé þannig að þær geti verið sáttar við sinn hlut vegna þess að okkur er auðvitað öllum ljóst að ekkert samfélag þrífst án kvenna og það er þess vegna, eins og ég sagði áðan, mjög á réttum stað að Vestnorræna ráðið skuli taka á þessum málum og vonandi að þeim verði þá fylgt eftir á sama hátt.

Eins og hér hefur komið fram rekja þessar tillögur um málefni kvenna tilurð sína til ráðstefnu sem haldin var í Færeyjum í júní sl. Þar störfuðu sex starfshópar og má segja að tillögurnar séu sameiginlegur afrakstur þeirra hópa. Það voru bæði stjórnmálamenn, rannsóknarfólk, vísindamenn, háskólagengið fólk og fólk víða að úr samfélaginu, mest konur, sem sátu ráðstefnuna og fjölluðu um þessi mál. Og það var nokkuð eindregin niðurstaða sem þar kom fram sem birtist hér í þessum tillögum.

Þær tillögur sem ég ætla fyrst og fremst að tala um eru í stafliðum a til f í tillögunni. En ég vil fyrst, herra forseti, fara aðeins yfir tillögu sem er með staflið a, um að Alþingi standi fyrir ráðstefnu kvenna á Vestnorrænu þjóðþingunum í samvinnu við þing Færeyinga og Grænlendinga.

Eins og fram kemur í rökstuðningi við tillöguna en þar segir, með leyfi forseta:

,,Vestnorræn samfélög hafa í gegnum tíðina verið veiðisamfélög og hefur það skapað vestnorrænum konum sérstakt umhverfi, ólíkt því sem gerist í iðnaðarsamfélögum annarra norrænna ríkja. Þetta hefur hugsanlega leitt til þess að þátttaka vestnorrænna kvenna í stjórnmálum er minni en gerist annars staðar á Norðurlöndum. Því er áríðandi að skapa vettvang fyrir vestnorrænar konur í stjórnmálum þar sem þær geta skipst á hugmyndum og miðlað af reynslu sinni og þannig styrkt samvinnuna sín í milli.``

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt, herra forseti, vegna þess að ef við horfum til þess hvernig staða kvenna er í stjórnmálum, þá hefur það verið svo lengst af hér og er enn í Færeyjum og á Grænlandi að staða kvenna hefur verið mun lakari en annars staðar á Norðurlöndum. Í síðustu kosningum breyttist þetta hins vegar hjá okkur og 35% alþingismanna sem kjörnir voru í síðustu alþingiskosningum eru konur, og með þeim breytingum sem hér hafa átt sér stað hefur þeim fjölgað enn, þannig að ég hygg að þær séu núna 38--39% alþingismanna. Það er mjög góður árangur miðað við þá stöðu sem hér hefur verið lengst af.

En það vekur jafnframt athygli, herra forseti, að það er svolítið mismunandi hjá okkur hvaðan konurnar koma. Hlutfallslega mun fleiri konur á Alþingi Íslendinga koma úr R-kjördæmunum en af landsbyggðinni og ef menn bera saman hlutfall kynja innan þingmannahópanna þar, þá er það mun jafnara en annars staðar. Úti á landi eru konurnar enn til muna færri og enn þá eru tvö kjördæmi þar sem engin kona er kjörin á Alþingi.

Landsbyggðin er því enn þá í mjög svipaðri stöðu og þjóðþing Færeyja og Grænlands, þ.e. hlutfallið er einhvers staðar á milli 15 og 20% eins og gerist hjá þeim frændum okkar. Það segir okkur að einhver líkindi kunni að vera með þeim aðstæðum sem konum eru búnar í Færeyjum, á Grænlandi og úti á landi á Íslandi. Það sem segir í rökstuðningi fyrir því að þessar ráðstefnur verði haldnar, þ.e. að sú staðreynd að vestnorræn samfélög hafi í gegnum tíðina verið veiðimannasamfélög, er að mínu mati skýringin. Staða kvenna hér á suðverstuhorninu er til muna orðin líkari stöðu kvenna í iðnríkjunum og fjöldi þeirra í stjórnmálum þar af leiðandi í svipuðu hlutfalli.

[14:15]

Ein af þeim tillögum sem eru ekki á meðal þeirra sem liggja fyrir Alþingi Íslendinga er einmitt tillaga sem verður væntanlega borin upp á þjóðþingum Grænlands og Færeyja um að þar beiti menn sér markvisst fyrir aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Þar horfa þær til þess sem gert var hér en eins og menn muna var hér á Alþingi samþykkt tillaga þess efnis haustið 1998 að skipuð yrði nefnd til þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Nefndin var skipuð til fimm ára og fyrsta verkefni hennar var að ráðast í aðgerðir og kynningarstarf til að reyna að auka hlut kvenna þegar í síðustu kosningum.

Eins og ég gat um áðan, herra forseti, bar það þann árangur að í heildina séð erum við u.þ.b. að verða á pari við önnur norræn ríki og vel það hér, ef við horfum bara til R-kjördæmanna. Þetta skiptir verulegu máli og þess vegna, af því ég gat um það áðan, að veiðimannasamfélagið hefði þarna ákveðin áhrif.

Þá skiptir líka máli, herra forseti, að bætt verði skilyrði til rannsókna á málefnum sem tengjast konum sérstaklega og sömuleiðis þar sem fjallað er um í c-lið að gerð verði verkefnaáætlun um jafnrétti kynjanna.

Ég er á þeirri skoðun, herra forseti, að miðað við það sem við horfum til varðandi þátttöku kvenna í stjórnmálum sé óráð að fara með aðferðir og hugmyndir iðnríkjanna hráar og ætla að láta þær gilda sem möguleika til framfara fyrir þær konur sem búa við þessar aðstæður. Þess vegna er mjög mikilvægt að fram fari rannsóknir á stöðu kvenna í veiðimannasamfélaginu en eftir því sem ég hef leitað eftir virðist vera lítið um það, ef nokkuð. Menn hafa verið að skoða afmarkaða þætti eins og stöðu kvenna í sjávarbyggðum og slíka hluti en hafa ekki náð utan um þetta verkefni enn þá. Þess vegna er mjög mikilvægt að það verði gert vegna þess að við náum ekki árangri ef við höfum ekki réttan grunn til að standa á og réttar forsendur til að vinna út frá.

Ég held það væri mjög mikils virði í framhaldi af þeim tillögum sem liggja fyrir og gæti verið liður í framkvæmd þeirra að við beittum okkur bæði fyrir slíkum rannsóknum og einnig, eins og kom fram í máli framsögumanns, hv. þm. Árna Johnsens, að á vettvangi Vestnorræna ráðsins yrði sérstaklega fjallað um þetta efni.

Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði í upphafi um mikilvægi þess að skapa konum á norðurslóðum þær aðstæður að þær geti verið sáttari við umhverfi sitt og aðstæður sínar. Þess vegna er mjög mikilvægt að markvisst verði unnið úr þessum tillögum og að menn haldi sig þá við þann veruleika sem ég held að við séum velflest sammála um að sé þannig að það er munur á þessum samfélögum og sá munur hlýtur einnig að birtast í stöðu bæði karla og kvenna í veiðimannasamfélögunum.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að halda langa ræðu og ég held að ég sé búin að koma að því sem mér finnst skipta máli. Ég vil þó í lokin nefna f-lið tillögunnar sem er í afskaplega skemmtilegu samræmi við þær tillögur sem þegar hafa verið kynntar varðandi fæðingarorlofsmál á Íslandi. En í f-lið stendur að það eigi að fela ríkisstjórninni, ef samþykkt verður, að vinna að því að stofna sjóð eða koma á öðru fyrirkomulagi sem greiði allan kostnað af fæðingarorlofi. Mér sýnist að með þeim hugmyndum sem liggja nú fyrir um það að tryggingagjaldið standi straum af fæðingarorlofsgreiðslum fyrir bæði karla og konur, séum við komin mjög á svipaðan stað og sá starfshópur sem fjallaði um þetta mál á ráðstefnunni í Færeyjum og í rauninni hafi ríkisstjórnin hér komist að niðurstöðu sem er þverpólitísk og ætti þess vegna að geta orðið mjög mikil sátt um, bæði á Alþingi og úti í samfélaginu.