Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 18:37:29 (6066)

2000-04-06 18:37:29# 125. lþ. 94.13 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[18:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Til umræðu er nýgerður búvörusamningur og hefur umræðan verið ansi yfirgripsmikil og ég vil meina góð og í marga staði mjög fróðleg. Ég get þó ekki látið hjá líða að koma í ræðustól og hnykkja eilítið á einu atriði sem hv. þm. Þuríður Backman gat þó um í ræðu sinni en það er það sem lýtur að lífrænum landbúnaði og lífrænt vottaðri framleiðslu.

Herra forseti. Að mínu mati er það ekki nægilega ábyrgt af þeim sem að þessu áliti standa að ekki skuli vera getið um það einu orði í samningnum og þessu frv. til laga, að lífrænt vottaðar vörur séu hluti af búvörusamningnum. Það er satt að segja sárgrætilegt í þeirri umræðu sem þó er til staðar í samfélaginu í dag að stjórnvöld skuli ekki ætla að átta sig á því að ef einhver landbúnaður er umfram annan umhverfisvænn, nánast náttúruvernd, þá er það hinn lífræni landbúnaður sem við eigum til staðar í landi okkar. Ég fullyrði, herra forseti, að ef til kæmi hvatning frá stjórnvöldum þá treysti ég mér til að fullyrða að tugir bænda gætu án mikillar fyrirhafnar stigið skrefið yfir í lífræna ræktun og í það að framleiða lífrænt vottað dilkakjöt. Við vitum af upplýsingum frá mörkuðum erlendis að lífrænt dilkakjöt sárvantar inn á markaði í Evrópu og það að ekkert skuli vera talað um í gæðastýringarkafla þessa samnings að beita lífrænum aðferðum við að ná upp ræktarlandi er líka grætilegt, herra forseti. Spámenn í hinu stóra Evrópusambandi segja að um árið 2010 megi gera ráð fyrir að 15--25% af ræktarlandi Evrópusambandsins komi til með að verða vottað lífrænt ræktarland. Í dag árið 2000 erum við að ræða um búvörusamning á Íslandi sem á að gilda til ársins 2007 eða 2008 og við nefnum ekki lífrænt ræktarland. Fyrir þetta átel ég þá sem að þessum samningi standa. Hins vegar er grunnhugmyndin í gæðastýringarkerfinu góð.

Mér þykir hins vegar sárt að heyra hv. 1. þm. Norðurl. v., Hjálmar Jónsson, formann hv. landbn. segja það fullum fetum í ræðustóli, að gæðakerfið sé lítið útfært. Svo sannarlega hefði verið þörf fyrir betri útfærslu á því og ekki hvað síst er varðar landnýtinguna, afréttina og landkostina þar.

Manni sárnar að sjá setningu í frv. á bls. 17 sem fjallar um afrétti og fjallað er um beitarstjórnunina og ræktarlandið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem land hefur lágmarkshulu gróðurs, rof innan tilskildra marka og ástand gróðurs talið ásættanlegt, skal beitarnýting ekki vera meiri en svo að jafnvægi ríki eða gróðri fari fram og rof minnki.``

Herra forseti. Það er ekki ásættanlegt að á svæði þar sem ástand gróðurs er einungis talið ásættanlegt, þar sem viðurkennt er að rof sé til staðar, þá skuli einungis verða gerð krafa um að jafnvægi ríki. Ég tek sömuleiðis undir þá gagnrýni hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur sem kom fram áðan að tekið skuli fram í samningnum að ef ekki fáist fjármagn til nauðsynlegra girðinga, þá verði bændur ekki látnir gjalda þess í vottun sem, herra forseti, þýðir ekkert annað en það að beit verður leyfð og gæðavottunin verður veitt jafnvel þó svo fé gangi á svæði sem alls ekki er talið vera sjálfbært.

Herra forseti. Í þeim stöðlum sem lífrænn landbúnaður fer eftir er fjallað um gróðurlendi, landnýtingu og beitarstjórnun. Ég hvet hv. landbn. þegar hún fjallar um þennan samning og frv. sem hér liggur fyrir að fara betur yfir þann þátt mála og leggja til bragarbót á þeim kafla sem fjallar um beitarstjórnun og beitarland. Landið okkar á það skilið.

Ég vil vitna í orð hv. þm. Hjálmars Jónssonar sem talaði áðan um að við værum að stefna að hollari og betri búvörum. Það er auðvitað alveg rétt, það er okkar sameiginlega markmið og um það markmið getum við svo sannarlega sameinast og tekið verulega vel á í þeim efnum að vörurnar okkar verði æ hollari og æ betri. En hv. þm. segir jafnframt að hann vilji í framtíðinni sjá eitt heildstætt kerfi sem byggi á hollustu og hreinleika. Í framhaldi af því spyr ég hv. þm. Hjálmar Jónsson, hvers vegna hefur þá lífræna framleiðslan gleymst í þessum samningi? Hvers vegna erum við ekki að gera meira í þeim samningi sem hér liggur fyrir til að efla eða gera fólki grein fyrir því að lífræna framleiðslan er umhverfisvernd, hún er náttúruvernd. Ég verð að segja, herra forseti, í ljósi allra þeirra upplýsinga sem við höfum um erlenda markaði og möguleika í lífrænni ræktun er þetta auðvitað ekki ásættanlegt. Það er hálfgrátlegt til þess að vita að krafturinn hjá stjórnvöldum hefur iðulega farið í einhvers konar undanþágupólitík þar sem á erlendum mörkuðum því er haldið fram sem við vitum að lambakjötið okkar, þó svo það hafi ekki lífræna vottun, er hreint. Við vitum að það gengur á góðu landi og við vitum að það er hreinna en þær afurðir sem eru ræktaðar á verksmiðjuframleiðslubúum í Evrópu. Samt sem áður höfum við ekki gert neitt átak í því að styrkja lífrænu framleiðsluna umfram þá vistvænu. Við höfum jafnvel verið að beita krafti okkar í að sækja um undanþágur frá kröfunni um tilbúinn áburð á ræktarlandi og það að kraftar stjórnvalda skuli fara í að sækja um undanþágur frá Evrópuvettvangi frá kröfunni um tilbúinn áburð er í hæsta máta vafasöm pólitík.

Herra forseti. Ég hvet hv. landbn. og alla þá stjórnmálamenn sem að þessum málum koma að gefa betri gaum að lífrænu ræktuninni, gefa betri gaum að lífrænt vottaða dilkakjötinu, opna augun fyrir möguleikum þess og gera verulega gott átak í aðlögunarstuðningi fyrir bændur sem vilja fara út í lífræna ræktun. Í því sambandi langar mig til að minna á till. til þál. sem búið er að dreifa í þinginu á þskj. 678 þar sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð eða þrír þingmenn hennar koma fram með tillögu um aðlögunarstuðning til bænda sem stunda lífrænan landbúnað.

Herra forseti. Lífræn framtíð er framtíð sem við þurfum að standa vörð um, framtíð sem við getum hafið til vegs í auknum mæli og meiri mæli en þessi búvörusamningur gerir.