Staðfest samvist

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 22:09:44 (6129)

2000-04-06 22:09:44# 125. lþ. 94.18 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[22:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Sannarlega er ástæða til að fagna því frv. sem er komið fram og anda þess og þeim réttarbótum sem eru lagðar til fyrir samkynhneigða í staðfestri samvist. Eins og komið hefur fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, var boðað að þessi leið yrði farin, þ.e. dómsmrh. hæstv. boðaði að brtt. kæmu fram við lögin um staðfesta samvist og þær liggja nú fyrir. Ég lít svo á að hv. allshn. hafi þar með aðgang að þessum lögum umfram það sem segir í þessu frv. Ég treysti því sem sagt hefur verið og hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir gefur okkur nánast loforð um, að innan skamms muni koma tillögur frá hv. allshn. um stjúpættleiðingar samkynhneigðra. Þessu ber auðvitað að fagna.

Ef við lítum í heild á réttarbaráttu samkynhneigðra, íslenskra lesbía og homma, frá upphafi þá sjáum við að skrefin koma, við tökum skref. Þó þau séu sum smá og við vildum gjarnan hafa þau stærri eru þau samt sem áður til staðar og þetta er eitt af þeim skrefum sem þarf að stíga sem við erum að stíga núna. Það er svo sannarlega réttarbót. En ég er í hópi þeirra sem vildu óska að við gætum tekið stærri skref. Ég er í hópi þeirra sem segja hvað er okkur að vanbúnaði að samþykkja full mannréttindi til handa samkynhneigðum? Hvað er okkur að vanbúnaði að leyfa frumættleiðingar samkynhneigðra eins og Hollendingar hafa leyft? Hvað er okkur að vanbúnaði að leyfa lesbískum konum að fara í tæknifrjóvgun? Það eru enn þá ákveðin atriði sem ég er svo sem viss um að hv. allshn. kemur til með að skoða í umfjöllun sinni um þetta mál.

Af því að dönsku lögin hafa verið nefnd og eru fyrirmynd þess frv. sem liggur fyrir ítreka ég að Danir hafa leyft stjúpættleiðingar, þeir hafa reyndar ekki leyft tæknifrjóvganir fyrir lesbískar konur, þeir hafa ekki leyft frumættleiðingar, þeir leyfa ekki ættleiðingar á börnum utan lands frá. Þar eru ekki leyfð kirkjubrúðkaup fyrir samkynhneigða en þó er ákveðið form blessunar til staðar fyrir samkynhneigð pör í Danmörku og það er eitthvað sem ég held að við verðum að fara að innleiða. Á einhvern hátt verðum við að fá okkar æruverðugu þjóðkirkju til að blessa með viðeigandi hætti sambönd samkynhneigðra. Það skýtur svolítið skökku við og það má kannski beina því til hv. allshn. að hún athugi ákvæði í hjúskaparlögum, sem samkvæmt lögunum um staðfesta samvist gilda um það fólk sem býr í staðfestri samvist, þar sem segir í 8. gr. þeirra laga, með leyfi forseta:

,,Ákvæði hjúskaparlaga um ógildingu hjúskapar, hjónaskilnaði og fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita gilda um ógildingu og slit staðfestrar samvistar ...``

Nú ber á það að líta að í þeim hjúskaparlögum sem vitnað er til er þess getið að áður en hjón slíta samvistum eða slíta hjúskap skuli þau leita til prests, þau skuli leita sátta prests. Að mínu mati er kannski um lítið atriði en lapsus að ræða. Hér er misvísandi grein sem gildir um pör í staðfestri samvist sem ætla að slíta hjúskap sínum, þau eiga að leita til prests sem á að sætta á milli þeirra eða gera tilraun til sátta þegar þau ætla að skilja en þau fá ekki blessun hans við upphaf sambúðarinnar. Hér er því atriði og það eru kannski fleiri atriði sem þarf að skoða í þessu tilliti þegar lög um staðfesta samvist hafa nú verið opnuð. Ég bendi á erfðalögin og ég bendi á lögin um tæknifrjóvgun. Eins og ég segi er okkur kannski ekkert að vanbúnaði að ganga lengra en að samþykkja stjúpættleiðingarnar eða leggja til reglur um stjúpættleiðingar til handa samkynhneigðum.

Orð mín til hv. allshn. felast því fyrst og fremst í hvatningu til að brjóta þetta mál algjörlega til mergjar. Skoða þau lög sem gætu mögulega fjallað um þessi mál, þ.e. þau pör sem búa samkvæmt lögunum um staðfesta samvist, og athuga hvort það sé ekki á fleiri sviðum sem við getum gert bragarbót og aukið mannréttindi samkynhneigðra. Það verður að segjast eins og er að samkynhneigðir eru að ryðja braut nýjum viðhorfum, þeir hafa verið að berjast gegn fordómum, og viðhorfin til lesbía og homma hafa gjörbreyst á mjög skömmum tíma.

[22:15]

Samkynhneigðir hafa sýnt og sýna daglega að þeir eru ekki síður en gagnkynhneigðir færir um að lifa ánægjulegi lífi í sátt við umhverfi sitt, í sátt við allt sitt nánasta umhverfi og samfélag. Til þess að samkynhneigðum sé fært að njóta lífsins eins og þeir þurfa þá er nauðsynlegt að skilningur gagnkynhneigðra verði þeim ekki fjötur um fót.

Það er vert að ítreka þakkir fyrir að hér skuli búið að opna þessi lög. Ég treysti því og veit að hv. allshn. kemur til með að taka þetta mál til athugunar og skoða ofan í kjölinn. Þegar það kemur frá nefndinni þá treysti ég því að það verði efnismikið og komi til með að brjóta í blað í réttindamálum samkynhneigðra.