Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:06:40 (6159)

2000-04-07 12:06:40# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:06]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur á að ég tók til máls við 1. umr. um þetta mál. Ég gagnrýndi marga þætti þess eins og sjá má í þeirri þingræðu og var að vísu mjög samstiga hv. þm. Margréti Frímannsdóttur við upphaf málsins.

En í mínum huga snýst málið líka um það hvernig maður sér t.d. framtíð Landsvirkjunar. Ég er t.d. einarður andstæðingur þess að selja fyrirtækið. Ég vil að opinberir aðilar eigi það. Ég held að átökin núna séu eins og í svo mörgu öðru sem við erum að gera þegar dansinn í sölu ríkiseignanna, fjölskyldusilfursins, er á fullu. Þá eru margir truflandi hagsmunaaðilar í samfélaginu sem hamla því að maður sjái heildarmyndina í þessu dæmi. Það er mjög snúið mál.

Þess vegna spretta auðvitað alls staðar upp, þegar farið er í svona kerfisbreytingar sem keyrðar eru áfram, hagsmunaaðilar sem vilja fá bita af kökunni og líta þá til lengri tíma. Þetta finnst mér afleit staða þar sem ég er talsmaður stórra og mikilla fyrirtækja í orkugeira og opinberum rekstri, heilbrigðismálum o.fl.

Það voru reyndar mjög fáir þingmenn sem tóku til máls þegar málið var lagt fram en ég hef komið að málinu og úttalað mig um það frá upphafi. Ég man ekki betur en aðeins fjórir eða fimm, þar á meðal hv. þm. Samfylkingarinnar, hafi þá tekið til máls um frv.