Gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 14:31:08 (6191)

2000-04-07 14:31:08# 125. lþ. 95.32 fundur 544. mál: #A gjaldtökuákvæði nokkurra laga á sviði sjávarútvegs# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2000, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[14:31]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé tilviljun að þessi mál eru á dagskrá í dag, daginn eftir að hinn mikilsverði hæstaréttardómur féll. Það er a.m.k. ekki viljandi af minni hálfu að það er í dag, það eru þá einhverjir aðrir sem hafa haft þar hönd í bagga. Hins vegar er það auðvitað athyglisvert í samhengi við það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vitnaði til úr dómnum að bæði þessi frv. voru lögð fram fyrir nokkru á Alþingi og fjalla einmitt um gjaldtöku og að sú gjaldtaka skuli ákvörðuð af Alþingi en ekki annars staðar og er þar af leiðandi í fullu samræmi við það sem fram kemur í dómnum sem féll í gær.

Ef staðan hefði verið sú að þetta væru viðbrögð við dómnum væri óhætt að segja að það væru ansi hraðar hendur í sjútvrn., þær eru það út af fyrir sig en það tekur lengri tíma en tæpan sólarhring að fara í heildarendurskoðun á gjaldtökuákvæðum þeim sem eru í lögum um fiskveiðar og sjávarútveg. Ég held því að allir megi sjá að þessi frv. eru ekki viðbrögð hæstv. ráðherra eða hæstv. ríkisstjórnar við dómnum.

Hins vegar veit hv. þm. Sighvatur Björgvinsson það líka, eins og væntanlega líka aðrir hv. þm., að tvær nefndir eru starfandi, önnur þingkjörin, þ.e. auðlindanefndin, og hin skipuð af ráðherra, um endurskoðun fiskveiðistjórnarlöggjafarinnar. Þessar nefndir munu væntanlega báðar fjalla um hugsanlega gjaldtöku af sjávarútveginum umfram það sem er í þessum tveimur frv. Ég held að það væri rangt af mér, herra forseti, að útiloka að það gæti komið í minn hlut að leggja fram frv. um frekari gjaldtöku einhvern tíma í framtíðinni.