Matvæli

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 15:34:53 (6210)

2000-04-07 15:34:53# 125. lþ. 95.37 fundur 554. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, gráu svæðin eru of mörg, en þeim fer ört fækkandi eins og t.d. með þessu frv. En varðandi það að færa matvælaeftirlitið undir einn hatt eða tvo þá styð ég það heils hugar og flutti um það tillögu í ríkisstjórninni. Ég tel að það komi mjög vel til greina að tengja slíka uppstokkun við frekari uppstokkun innan stjórnkerfisins milli ráðuneyta. Það kemur því alveg til greina að það verði skoðað í einhverjum stærri pakka.

Erlendis er búið að sameina matvælaeftirlitið í nágrannalöndum okkar, í Noregi er það reyndar tvískipt, það er annars vegar sjávarútvegurinn og hins vegar rest, má segja. Og ég hef fundið fyrir ákveðnum vangaveltum innan sjávarútvegsins hér hvort ekki ætti að halda matvælaeftirlitinu gagnvart sjávarútveginum sér af því hann er svo sérstakur hérna hjá okkur, við erum háð útflutningi á fiskafurðum, það er því hugsanlegt að þetta lendi í tveimur ráðuneytum. En það kemur líka mjög vel til greina að færa allt matvælaeftirlitið undir eitt ráðuneyti. Ég er alveg tilbúin til að ganga í þá uppstokkun með opnum huga og ég taldi það vera það brýnt mál að ég lagði til í ríkisstjórninni að matvælaeftirlitið yrði einfaldað. Við verðum svo að sjá hver niðurstaðan verður um hvar matvælaeftirlitið lendir.