Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:42:24 (6222)

2000-04-07 16:42:24# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Eitt af meginefnum frv., sennilega meginefni þess, felst í 3. gr. þar sem iðnrh. er veitt heimild til að taka leigugjald fyrir nýtingu auðlinda annarra en lifandi dýra í hafsbotninum í efnahagslögsögu Íslands. Í athugasemd með lagafrv. segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Hlýtur það að teljast eðlilegt að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar.``

Um þetta er ég 100% sammála hæstv. ráðherra. En ég fæ ekki skilið að þessi röksemd gangi upp ef hún á bara við það sem finnst lifandi í hafsbotninum en ekki það sem finnst lifandi fyrir ofan hann né heldur það sem finnst lifandi í hafsbotninum sjálfum. Þannig á ekki að taka gjald fyrir nýtingu á lifandi skelfiski sem er eins og allir vita í hafsbotninum. En innheimta á gjald eftir að skelfiskurinn er dauður, þ.e. þegar á að nema skeljasandsnámur t.d. fyrir sementsframleiðslu. Það sem skilur þar á milli eru landamæri lífs og dauða í þessu tilfelli og ég spyr hæstv. iðnrh.: Finnst hæstv. ráðherra það eðlilegt að gerð sé aðeins tillaga, eins og hún gerir hér, þar sem krafist er gjalds fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar uppfylli þær auðlindir þau skilyrði að vera bæði dauðar og í hafsbotninum?