Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:59:47 (6228)

2000-04-07 16:59:47# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. iðnrh. að sams konar ákvæði var og er í þjóðlendulögunum. Ég ætla bara að minna hæstv. ráðherra á að ég flutti sömu ræðu við það tilvik eins og nú, og finnst það jafnóeðlilegt að forsrh. Íslands skuli geta valið sér viðsemjanda og samið við hann um nýtingu á auðæfum hálendisins í sameign þjóðarinnar án þess að nokkur fái um það að vita, án þess að nokkurt val hafi átt sér stað eða nokkrar reglur séu settar þar um. Tillögur um breytingu á þeim efnum voru felldar í meðferð þingsins. Þingmeirihlutinn vildi hafa þetta svona en það er jafnóeðlilegt og það er jafnfráleitt að þingið afhendi ráðherra slíkt vald nú eins og þá, og það eru engin rök fyrir því að allir ráðherrar eigi að fá sama óskoraða valdið þó að forsrh. hafi fengið það með meirihlutasamþykkt hér á Alþingi gegn atkvæði mínu og fleiri.

Miðað við lögin eins og þau verða þegar búið er að samþykkja þetta frv. getur ráðherra t.d. samið við hvaða fyrirtæki sem honum dettur í hug um olíuleit á Íslandi, á hvaða verði sem er. Það þarf nýja lagasetningu og nýjar reglur til að koma í veg fyrir það. Hæstv. ráðherra sagði að það væri ekkert óeðlilegt að iðnn. skoðaði þetta ákvæði og ég vona að ég megi marka þau orð þannig að ráðherra finnist eðlilegt að skoðað sé hvort ekki eigi að breyta þessu ákvæði og gera það eðlilegra. Ég vona að svo verði gert því að þetta nær engri átt.