Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:22:12 (6235)

2000-04-07 17:22:12# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:22]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar og 1. umr. frv. til laga um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, nr. 73 18. maí 1990. Ég vil almennt á þessu stigi málsins segja að ég fagna fram komnu frv. í aðalatriðum en þó tek ég undir gagnrýni manna varðandi það form sem á að hafa á málum eins og segir í 3. gr.

,,Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo: Iðnaðarráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir töku eða nýtingu sem hann heimilar skv. 1. mgr. Tekjum af leyfum skal varið til hafsbotns- og landgrunnsmála samkvæmt nánari ákvörðun iðnaðarráðherra.``

Ég tek undir með hv. þm. sem hafa sett fram efasemdir um 3. gr. Ég held að við þurfum að skoða þau mál mjög gagnrýnið þegar málið kemur til umfjöllunar í iðnn. en ég vil árétta að ég tel að frv. sé til bóta og tímabært að það komi fram. Í umræðunni hefur komið fram að t.d. olíufélög leita á um að fá að gera rannsóknir, tilraunaboranir á þeim svæðum á landgrunninu sem líkleg eru til að gefa olíu í framtíðinni og vinnslu. Ég held að við í iðnn. þurfum að bera okkur saman við reynslu annarra þjóða. Það þarf ekki að fara lengra en yfir pollinn og til nágranna okkar í Færeyjum og sjá hvernig þeir hafa staðið að málum og hvernig þeir standa að úthlutun leyfa. Einnig er gömul reynsla náttúrlega fengin í Noregi, Danmörku, Þýskalandi og Skotlandi varðandi þessi mál. Ég minnist þess frá dvalarárum mínum í Danmörku að þá var verið að veita leyfi til olíufélaganna bæði til að tilraunabora og síðan að fara í tilraunavinnslu og ég man ekki betur en það hafi verið gert á grunni útboða. Þetta eru því mál sem þarf mjög að athuga.

Ég held að Danir hafi haft þann háttinn á að stunda útboð, þeir létu fyrirtækin keppa um landsvæði sem voru líkleg til að gefa jákvætt í tilraunaborunum og síðan var leyfið veitt á grunni útboða.

Ég held að rangt sé á þessu stigi málsins, eins og komið hefur fram hjá þingmönnum, t.d. hv. 2. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, að blanda öðrum ágreiningsmálum um auðlindanýtingu þjóðarinnar inn í þessa umræðu. Ég held að við getum í öllum aðalatriðum tekið undir það að hér er á ferðinni gott mál. Við getum að vísu farið út um víðan völl varðandi auðlindanýtinguna og farið í umræðu um vatnið og landið, þjóðlendurnar eins og hér hefur verið nefnt, hálendið, beitina og jarðhitann. Allt eru þetta álitamál en eru önnur mál. Hér erum við á nýjum fleti og eigum að taka þetta út frá því.

Það er líka ánægjuefni að hugur manna samkvæmt þessu frv. stendur til þess að auka rannsóknir á landgrunninu og það er svo sannarlega þörf á því að auka rannsóknir til að kortleggja hvaða möguleika við eigum þar.

Ég vildi aðeins koma upp hér og segja nokkur almenn orð um þetta. Ég tel fullvíst að þetta hljóti nákvæma og góða umfjöllun í iðnn. og ég mun leggja þar til sérstaka kortlagningu og úttekt á 3. gr. Ég get gert samanburð varðandi hálendisfrv. Það var alls ekki að mínu skapi, þó að ég hafi ekki verið hér í þingsölum á þeim tíma, að fela forsrh. umsjá og umsýslu. Ég tel það mjög gagnrýnivert og þar með þetta fyrirkomulag sem hér er og það hljóti að vera aðrar og betri leiðir til að ganga frá þeim praktísku hlutum, enda hefur hæstv. ráðherra sagt héðan úr ræðustól að hún muni skoða alla tillögur sem nefndin ber fram til breytinga ef þær gætu verið til bóta.

Að svo mæltu ætla ég að segja almennt að ég fagna þessu frv. og tel, eins og sagt er í niðurlagi við athugasemdir, að það hljóti að vera eðlilegt að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar og tel að á þessu stigi málsins sé ekki hægt að setja samasemmerki við hafsbotninn, eins og hér er til umfjöllunar, við nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar þar sem hefð er fyrir notkun um árhundruðaskeið. Við verðum að átta okkur á því þegar við förum í þessa umræðu að beit og notkun á landi, vatni, jarðgufu og þess háttar á sér nýtingarhefðir og taka þarf þá umræðu á allt öðrum grunni en hér er gert. En ég tel að hér séum við á sléttum sjó með að gera það sem gott er fyrir heildina og við eigum að taka þetta sem einangrað mál og gera það vel.