Ráðuneyti matvæla

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:34:02 (6237)

2000-04-07 17:34:02# 125. lþ. 95.50 fundur 536. mál: #A ráðuneyti matvæla# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert og róttækt frv. sem þingmaður Samfylkingarinnar á Suðurlandi, Katrín Andrésdóttir, mælir fyrir í dag. Þar leggur hún til að við Íslendingar fetum í fótspor Dana í þeim efnum að reyna að ná betri tökum á því að hér verði framleidd heilbrigð og góð matvæli.

Mig langar að vekja athygli á því að með því að breyta landbrn. í ráðuneyti matvæla og landbúnaðar erum við e.t.v. að tengjast annarri hugmynd sem Samfylkingin hefur nokkrum sinnum sett fram sem er um sameiningu atvinnuráðuneytanna. Þetta mundi geta þýtt víðtækari uppstokkun ef lagasetning af því tagi sem hreyft er hér yrði tengd slíkri breytingu.

Það sem mig langaði hins vegar að benda á í tengslum við þetta góða mál sem þingmaðurinn flytur hér, er hvernig það tengist öðru stjfrv. sem hér var rætt í dag um breytingu á lögum um matvæli þegar hæstv. umhvrh. mælti fyrir frv. til þess að koma í veg fyrir alvarlegar sýkingar af völdum kampýlóbakter og við höfum verið að upplifa það á liðnum vikum og mánuðum hversu alvarlega við erum komin í matvælaeftirlitinu og hversu víða við þurfum að taka á. Þess vegna fagna ég þessu frv. og vil þakka hv. þm. fyrir að hafa borið það fram hér til umræðu og skoðunar.