Ráðuneyti matvæla

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:36:00 (6238)

2000-04-07 17:36:00# 125. lþ. 95.50 fundur 536. mál: #A ráðuneyti matvæla# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér hefur hv. þm. Suðurl., Katrín Andrésdóttir, lagt fram merkilegt mál, afar róttækt og því miður háttar svo til að það reyndist ekki ráðrúm til að ræða þetta mál nema í blálok fundar á föstudegi sem hefur varað mun lengur en ætlað var og fáir þingmenn eftir í húsinu.

Ég verð að segja að ég tel þetta mjög miður. Ég tel að þetta sé mál sem hefði virkilega þurft að fá góða og ítarlega umfjöllun í þingsal. Þetta er róttækt mál. Þetta er mál sem gerir ráð fyrir að matvælaeftirlitið verði sameinað undir eitt ráðuneyti, landbrn. Þetta er mjög brýnt mál vegna þeirrar reynslu sem við höfum orðið fyrir t.d. núna á umliðnu ári þegar fólk fór að veikjast unnvörpum vegna sýkingar frá matvælum. Sem betur fer höfum við ekki þurft að glíma svo ýkjamikið við þetta vandamál fyrr, ekki í svona stórum stíl, en þetta kom upp mjög áþreifanlega og þá ekki síst í sérstöku umdæmi Katrínar Andrésdóttur héraðsdýralæknis sem flytur þetta mál hér í þingsal þannig að hún þekkir það mjög náið.

Ég tók í dag í umræðu um annað frv. sem hér var á dagskrá, um breytingu á lögum um matvæli, nokkur atriði úr þessu frv. upp við hæstv. umhvrh. Þá kom í ljós að umhvrh. tók að mörgu leyti undir efni þessa frv. Að vísu var hún með hugmyndir um að matvælaeftirlitið færðist ekki undir hv. landbrn. heldur hv. umhvrn. Ég ætla kannski ekki að taka sérstaka afstöðu til þess hvorum megin hryggjar þetta lendir en ég held að það hafi verið rökstutt mjög vel, m.a. í máli hv. þm. Katrínar Andrésdóttur rétt áðan, að það sé mjög brýnt að málið verði sett undir einn hatt. Þetta er skipulagsmál sem varðar okkur öll og framtíðarheill þjóðarinnar og ég held að við ættum að geta sameinast um það hér að gefa þessu frv. myndarlega afgreiðslu og meðferð inni í nefnd sem það verðskuldar vissulega.