Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 18:02:45 (6244)

2000-04-07 18:02:45# 125. lþ. 95.27 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[18:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að mikilvægt er að þingið fari vel í saumana á þessu frv. Hæstv. iðnrh. sagði að óeðlilegt væri að mati ríkisstjórnarinnar að opinberir aðilar kæmu nálægt tryggingamálum. Ég tel að alhæfingar á borð við þessa séu varasamar. Svarið hljóti að vera komið undir því hvort tryggingastarfsemi, rekin á vegum opinberra aðila gagnast viðskiptavinum, gagnast þjóðfélaginu, hvort hún er íþyngjandi fyrir samfélagið, skattborgarann. Allt þetta hlýtur að verða að skoða þegar svar er gefið við þeirri spurningu hvort ríkið eigi að koma nálægt slíkum málum. Ég minni á að fyrir nokkrum árum vorum við þvinguð vegna ákvæða í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði til að losa brunatryggingar í Reykjavík undan borginni, gera þær að sjálfstæðu fyrirtæki sem var síðan selt á markaði með slæmum afleiðingum fyrir viðskiptavini þess fyrirtækis. Brunatryggingar í Reykjavík höfðu boðið upp á einhverjar ódýrustu tryggingar sem finnast á byggðu bóli en síðan hefur komið á daginn að samkeppnin kostar sitt.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að selja fyrirtækið að svo stöddu en tók þó jafnframt fram að það væri ásetningur ríkisstjórnarinnar að losa sig við það. Við höfum heyrt yfirlýsingar af þessu tagi fyrr í tengslum við einkavæðingu símans og póstsins og annarra fyrirtækja. En í frv. er reyndar gengið lengra en þar var gert því þá var búið svo um hnúta að Alþingi þurfti að fara höndum um nýtt frv. áður en ríkisstjórnin fékk heimild til að selja. Í þessu frv. er sú heimild hins vegar fyrir hendi.

Hér kemur fram eins og reyndar kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að arðurinn af fyrirtækinu er nokkur. Hann er um 10 millj. kr. Fyrir liggja tvö kauptilboð. Það eru aðilar nátengdir fyrirtækinu sem bjóða í þennan gullmola sem virðist vera. Ég tek því undir orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að þetta mál verði rækilega skoðað í meðferð þingsins.