Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:13:44 (6297)

2000-04-10 18:13:44# 125. lþ. 96.32 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:13]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. frá meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið, sent það til umsagnar og fengið margt fólk til fundar og er alls þessa getið í nál. meiri hlutans.

Það mál sem hér er á ferðinni er enn ein viðleitni af hálfu löggjafarvaldsins til að haga gjaldtöku eða fjáröflun til vegagerðar á þann hátt að það sé í samræmi við almenna mælikvarða samkeppnislaga. Saga þessara breytinga er orðin nokkuð löng hér í þinginu. Eins og þingmenn sem sátu á síðasta kjörtímabili þekkja hafa verið gerðar nokkrar atrennur að því að reyna að haga þessum málum þannig að þau séu í samræmi við samkeppnislög.

[18:15]

Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki tillögu um aðrar breytingar á frv. en leiða af breyttri gildistöku eða breyttum gildistökutíma. Nefndin sendi hins vegar bréf til samkeppnisráðs þar sem óskað var eftir áliti á því hvort fast gjald á bifreiðar sem eru allt að 4 tonn að heildarþyngd væri í samræmi við samkeppnislög. En samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að það kynni að raska samkeppni á milli þeirra sem reka bifreiðar sem eru undir 4 tonn og hinna sem reka bifreiðar sem eru 4 tonn og þyngri ef ákvæði A-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, með síðari breytingum, stæði óbreytt.

Það var líka álit samkeppnisráðs að það kynni að hafa áhrif til að takmarka aðgang nýrra keppinauta að markaðnum að hafa annað form þungaskatts í A-lið 4. gr. laganna en í B-lið 4. gr. laganna. Þá er átt við að sumir þurfa að greiða gjald fyrir hvern ekinn kílómetra og eiga ekki kost á því að greiða fast gjald meðan aðrir geta valið um að greiða kílómetragjald eða fast gjald.

Þegar þetta álit lá fyrir átti nefndin um tvo kosti að velja. Annars vegar gat hún valið að leggja mikla vinnu í að breyta frv. með hliðsjón af þessu áliti samkeppnisráðs. Hins vegar gat nefndin lagt til að frv. yrði afgreitt eins og það stæði en mælst til við fjmrh. að fram færi heildarendurskoðun á lögunum. Meiri hluti nefndarinnar valdi þann kost að óska þess að fjmrh. léti fara fram endurskoðun á lögunum og að þá væru m.a. kannaðir að nýju kostir og gallar þess að taka upp olíugjald og enn fremur yrði skoðaður líka afsláttur vegna aksturs almenningsvagna í áætlunarferðum.

Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að vinnu við endurskoðun málsins verði hraðað þannig að fyrir liggi í upphafi næsta löggjafarþings niðurstaða af þeirri endurskoðun svo hið fyrsta verði hægt að ganga í að haga fjáröflun til vegagerðar þannig að það sé í samræmi við eðlileg sjónarmið og eðlilega samkeppnishætti.

Ég tel afar mikilvægt að lög almennt séu í samræmi við almenn ákvæði samkeppnislaga, að ekki sé verið að setja lög út og suður sem standast ekki almenn sjónarmið. Þess vegna tel ég brýnt að fjmrn. gangi sem fyrst í þetta mál og það verði skoðað með hliðsjón af þessari forsögu allri saman.