Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 16:42:08 (6368)

2000-04-11 16:42:08# 125. lþ. 97.20 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir að sjá í þessu nefndaráliti vitnað til einnar merkustu menntastofnunar hér á landi, Háskólans á Akureyri, þar sem talað er um að það sé ekki Veðurstofunnar eða annarra að gæta varðveislu íslenskra orða sem væntanlega eru dauðadæmd hvort eð er. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Nær væri fyrir flutningsmenn að hafa áhyggjur af talnalæsi Íslendinga og beita sér fyrir því að fólk fengi meiri og betri þekkingu í meðferð talna þar sem lífsmáti þjóðarinnar í framtíðinni byggist í æ ríkari mæli á því að geta metið upplýsingar á tölulegu formi, t.d. vindhraða í m/sek.``

Hvaða skilaboð er þessi menntastofnun að senda Alþingi? Er hún að segja okkur að það skorti eitthvað á þeirra eigin kennslu? Kannski að það sé líkt ástatt með þessa skóla og segir hér í greinargerð frá Veðurstofunni, með leyfi forseta:

,,... Veðurstofan stefnir að því að gefa út viðvaranir um hættulegar vindhviður sem gjarnan koma af fjöllum ...``

Það er einmitt svo með þennan málflutning. Hann kemur gjörsamlega af fjöllum frá þessum merka Háskóla á Akureyri.

En það er líka annað merkilegt þegar þessi ágæta Veðurstofa talar um að óeðlilegt sé að verið sé að rugla saman tölum. Þar segja menn, með leyfi forseta:

,,Vindstigin eða heiti þeirra hafa engin tengsl við slík vindfyrirbæri og vegna hins stutta tíma sem þessar hviður standa er eðlilegra að nota hraðaeininguna metra á sekúndu en kílómetra á klukkustund.``

Þeir eru sjálfum sér ósamkvæmir þarna hjá Veðurstofunni því þeir eru með tvær mælieiningar á sömu einingunni.