Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 17:04:09 (6371)

2000-04-11 17:04:09# 125. lþ. 97.21 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[17:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér er kunnugt um að við meðferð þessa máls í hv. þingnefnd hefur ítrekað komið til umræðu nauðsyn þess að endurskoða í heild lög þau sem gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ég vil þess vegna fyrir mitt leyti ítreka það sem ég sagði við 1. umr., hef sagt við forustumenn samtaka opinberra starfsmanna og til að mynda á aðalfundi Bandalags háskólamanna, að af minni hálfu er fullur vilji til að fara í viðræður um heildarenduskoðun á þessari löggjöf. Ég tel að það sé tímabært og nauðsynlegt. Ég fagna því að ríkur vilji er af hálfu forustumanna samtaka opinberra starfsmanna til þess sama. Ég mun þess vegna beita mér fyrir því, herra forseti, að slíkar viðræður geti farið af stað jafnskjótt og hægt er og geri mér vonir um að þeim verði hægt að ljúka með einhvers konar samkomulagi um endurskoðaða löggjöf þegar á næsta ári. Það má spyrja sig af hverju ekki er raunhæft að reikna með því að slíkri endurskoðun geti lokið fyrr. En ég tel ekki raunhæft að reikna með því, þó það væri í sjálfu sér ágætt, vegna þess að þeir sem vinna við þessi mál, bæði hjá samtökunum og hjá fjmrn., eru nú í viðræðum um ýmis réttindamál, eins og fram hefur komið, réttindamál sem eru opinberum starfsmönnum mikilvæg. Einnig eru fram undan, eins og líka hefur komið fram, heildarkjarasamningar á hausti komanda. Þess vegna tel ég ekki raunhæft að reikna með því að hægt sé að ljúka einnig þessu máli fyrr en á árinu 2001. Það er einfaldlega vegna þess að þetta eru sömu einstaklingarnir sem að þessu máli koma beggja vegna borðs og ekki varlegt að reikna með því að þeir hreinlega afkasti þessari endurskoðun jafnhliða hinum málunum sem ég hef nefnt hér.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, herra forseti, vegna þess að þetta er auðvitað mikið atriði í tengslum við frv. Ef tekst að ljúka heildarendurskoðun með viðunandi hætti og gera tilsvarandi breytingar á þessum lögum þá eru þær deilur sem hér hafa átt sér stað um þetta eina ákvæði laganna úreltar og munu heyra sögunni til, því þá verður væntanlega búið að ná samstöðu um þetta eins og vonandi önnur atriði í endurskoðaðri löggjöf. Þetta vildi ég að kæmi hér fram, herra forseti.