Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 18:14:47 (6381)

2000-04-11 18:14:47# 125. lþ. 97.22 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, Frsm. 1. minni hluta SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. formanni utanrmn. að um er að ræða samning milli tveggja stjórnvalda, Bandaríkjanna og Íslands, og ég tel að það geti a.m.k. orkað tvímælis eða því megi halda fram að sá samningur hafi verið brotinn.

[18:15]

En hvers vegna leystu þá ekki íslensk stjórnvöld málið í viðræðum við Bandaríkjamenn í stað þess að stefna þriðja aðila, Eimskipafélagi Íslands, í stórkostlegar málshöfðanir úti í Bandaríkjunum með ærnum tilkostnaði? Það er búið að vera eilíft klúður og búið að kosta þetta íslenska fyrirtæki stórfé, þetta mál sem varðar samninga milli tveggja ríkisstjórna.

Ég verð að segja eins og er að það má ekki treysta mikið slíkum samningum ef íslensk stjórnvöld geta ekki leyst slíka deilu á þeim grunni í staðinn fyrir að láta íslenska aðila, þriðju aðila, borga stórfé í málskostnað til þess að reyna að fá samningnum framfylgt eins og íslensk stjórnvöld telja að hann sé.

Í öðru lagi vil ég benda hv. þm. á að í umræddum samningi sem er til tveggja ára, samningi milli varnarliðsins og Atlantsskipa, veitir annar viðsemjandinn, þ.e. Atlantsskip, hinum viðsemjandanum einhliða ákvörðunarrétt á að framlengja samninginn í allt að þrjú ár þannig að hann undirritar fyrirframsamþykki við því að ef viðsemjandinn vill framlengja samninginn um eitt ár í senn þá neyðist flutningafyrirtækið til þess að standa við gerðan samning til allt að fimm ára. Það sem verið er að gera núna er að verið er að breyta því í miðjum klíðum. Það er verið að setja nýjar leikreglur í miðjum klíðum, allt aðrar leikreglur, herra forseti, en þær sem voru uppi þegar samningurinn var gerður. Það er ekki einu sinni gefinn eðlilegur aðlögunartími fyrir aðila til að bregðast við því.