Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 19:18:58 (6389)

2000-04-11 19:18:58# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[19:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Reykv., Geir H. Haarde, fyrir starf hans að þessu máli. Eins og kunnugt er stóðu allir stjórnmálaflokkar sem áttu setu á Alþingi að því. Segja má að í þeirri nefnd sem hv. fyrrv. þm. Friðrik Sophusson veitti forustu, hafi náðst samkomulag milli stjórnmálaflokkanna í öllum meginatriðum í málinu. Auðvitað er það svo að þessu fylgja kostir og gallar og það er óánægja með þetta mál hjá ýmsum í mínum flokki eins og ég hygg að sé í öllum öðrum stjórnmálaflokkum sem að þessu standa. En aðalatriðið er að náðst hefur samkomulag milli stjórnmálaflokkanna um það og Framsfl. mun að sjálfsögðu standa að því samkomulagi eins og ég hygg að allir aðrir stjórnmálaflokkar ætli sér að gera. Það er nauðsynlegt að ljúka málinu og leiða það til lykta.

Ég vænti þess að við getum eins fljótt og kostur er styrkt starfsaðstöðu þingmanna því ég tel afar mikilvægt, samfara þessum breytingum, að aðstaða þingmanna, sérstaklega á landsbyggðinni, verði verulega styrkt. Kjördæmin koma til með að stækka mjög mikið og erfiðara verður fyrir þingmenn að vera í nánu sambandi við kjósendur sína. Því er nauðsynlegt að þeir fái betri aðstöðu til að sinna því nauðsynlega sambandi við umbjóðendur sína.

Þegar lagt var af stað með þetta mál var aðalatriðið að jafna bæri atkvæðisrétt fólksins í landinu meir en þá var og það kom fljótt í ljós að ekki væri mögulegt að ná samkomulagi milli stjórnmálaflokkanna nema kjördæmin væru stækkuð, ekki síst í þeim tilgangi að allir flokkar ættu bærilega möguleika á því að fá þingmann kosinn í hverju kjördæmi. Auðvitað eru þessi kjördæmi afskaplega stór og mun stærri en áður var. En ég hygg þó að í reynd hafi kjördæmabreytingin 1958 og 1959 leitt til stærri kjördæma en við erum nú að stofna til, ef við berum saman samgöngur, upplýsingatækni og allar aðstæður í landinu.

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara yfir kosti og galla málsins. Ég tek undir með hv. 3. þm. Reykv., Geir H. Haarde, þegar hann mælti fyrir því, en vil aðeins ítreka það hér að Framsfl. stendur að málinu með kostum þess og göllum. Hins vegar hefur komið í ljós að einstakir þingmenn í mínum flokki eru ósáttir við það og munu láta í ljós skoðanir sínar hér eins og vera ber. En þingflokkur Framsfl. hefur ákveðið að standa að því á þann hátt sem upphaflega var stofnað til.