Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 21:19:28 (6400)

2000-04-11 21:19:28# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[21:19]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni orða hv. þm. um framgang mála á árunum 1988 þegar þær tillögur og hugmyndir sem hér eru til umræðu fæddust og urðu að veruleika, þá trúi ég því auðvitað að hv. þm. segi satt og rétt frá þegar hann lýsir samskiptum í þáv. þingflokki Alþb. og um þau viðskipti sem hann átti þar innan búðar og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég lýsti því hins vegar eingöngu sem við mér blasti sem samstarfsmaður formanns þess þingflokks. Ég minnist þess ekki að hann hafi sérstaklega haft fyrirvara frá þessum þingmönnum varðandi einstakar útfærslur og hugmyndir sem voru í vinnslu nefndarinnar á sumri 1998, sem síðan birtust í sameiginlegri skýrslu sem afhent var forsrh. 6. okt. 1998, sex dögum eftir að þing var sett. Ég minnist þess ekki sérstaklega að slíkir fyrirvarar hafi komið frá þeim þingmönnum. Það er auðvitað athyglisvert að þeir þingmenn Alþb. sem síðan gengu í raðir Samfylkingarinnar kannast vel við að gangur mála hafi verið á þann veg sem ég lýsti áðan og fulltrúi Alþb. í þeirri nefnd fór fram með. Þetta kemur mér því dálítið á óvart, en auðvitað hlýt ég að trúa því og geri það, að hér sé satt og rétt frá greint.

En ég vil segja, herra forseti, að það vekur athygli að vinstri grænir voru á móti stjórnarskrárbreytingum. Vinstri grænir ætla að vera á móti þessari breytingu á kosningalögum. Og það er auðvitað það sem skilur eftir í þessari umræðu, þeir vildu ekki vera með þegar kom að því að lagfæra stórkostlega gallaða kosningalöggjöf, þeir vildu ekki vera með þegar okkur miðaði í rétta átt í því að jafna vægi atkvæða, þeir voru þá á móti eða í besta falli sátu hjá.