Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:26:13 (6419)

2000-04-11 23:26:13# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:26]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Eins og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson veit talaði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mjög skýru máli í kosningabaráttunni enda fengum við glæsilega útkomu. Ég er ekkert feiminn við að segja að ég hef aldrei verið hlynntur þeim breytingum sem hér hafa verið lagðar fram og færði þann málflutning út í samfélagið í kosningabaráttunni. En ég vil vara við þeirri hugsun um að það sé lýðræði númer eitt, tvö og þrjú og það var það sem ég var að segja í málflutningi mínum, að jafna vægi atkvæða. Mjög margt annað kemur til og ég var að reyna að benda á þá stöðu sem við erum í, íslenskt samfélag, sem ég tel að sé stærsta vandamál landsbyggðarinnar í dag. Við búum við miðstýrt samfélag, sem ofan á allt annað ætlar að fara að taka öll völd í formi þess að fá alla kjörna þingmenn inn á svæðið hægt og rólega eftir því sem landsbyggðinni blæðir út vegna svona kerfisbreytinga. Margar aðrar þjóðir, eins og Evrópuþjóðirnar sem hv. þm. er nú svo hrifinn af og vill helst binda trúss sitt við, viðurkenna að vægi atkvæða skiptir ekki öllu. Það er hluti af lýðræðinu en það skiptir ekki öllu.