Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 23:46:03 (6424)

2000-04-11 23:46:03# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[23:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vísar í söguna og aðdragandann að þessu máli, nokkuð sem hefur verið til umfjöllunar hér og settar fram vafasamar söguskýringar í þeim efnum. Látum þær liggja milli hluta enda kom fram í máli hæstv. ráðherra að eðlilegt sé að virða sjónarmið einstaklinga í þessu máli. Hann segir að nú sé komið að lokahnykknum. Ég spyr: Er ekki ástæða til að virða þau sjónarmið sem fram hafa komið við þessa umræðu? Þau sjónarmið hafa verið mjög á einn veg með fáeinum undantekningum. Hér hefur komið fram gagnrýni á þær tillögur sem fyrir liggja og stuðningur við tillögur minni hlutans í nefndinni sem fjallaði um kjördæmabreytingarnar. Ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir áliti hans á umræðunni og þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram.

Í annan stað vil ég beina því til þingsins að skipuð verði sérnefnd líkt og gert er með stjórnarskrárbreytingar til að taka á þessu máli. Í allshn. eiga ekki allir þingflokkar fulltrúa, ekki fastafulltrúa. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð á t.d. ekki fulltrúa í allshn., á þar áheyrnarfulltrúa en ekki fastan fulltrúa. Mér þætti eðlilegt að skipuð yrði sérnefnd sem fjallaði um þetta mál.